Ekki ráðist í sérstaka rannsókn vegna Vikumálsins

Björk Eiðsdóttir.
Björk Eiðsdóttir. mbl.is/Heiðar

Fullyrðingar fyrrverandi nektardansara á Goldfinger um að þar væri stundað vændi, dansarar hefðu verið sviptir frelsi og að eigandi staðarins hefði tekjur af vændissölu dansara, leiddu ekki til sérstakrar rannsóknar af hálfu lögreglu höfuðborgarsvæðisins.

Yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins segir þó ekki þar með sagt að ábendingar um að vændi fari fram í tengslum við starfsemi Goldfinger hafi ekki verið rannsakaðar en hann geti lítið tjáð sig um rannsóknir sem ekki hafi lokið með ákæru.

Lovísa Sigmundsdóttir, sem dansaði nektardans á nektarstaðnum Goldfinger bar eigandann, Ásgeir Þór Davíðsson, ofangreindum sökum í viðtali við Vikuna sem birtist í ágúst 2007. Ásgeir Þór höfðaði í kjölfarið mál gegn dansaranum og blaðamanninum sem skrifaði viðtalið, Björk Eiðsdóttur og krafðist fébóta og að tiltekin ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk.

Ásgeir Þór hafði sigur í Hæstarétti, þ.e.a.s. blaðamaðurinn var dæmdur til að greiða honum bætur og ummælin dæmd dauð og ómerk. Þegar málið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur felldi Ásgeir Þór niður málið gegn dansaranum þar sem ummælin, eins og þau birtust í Vikunni, voru ekki nákvæmlega samhljóða því sem dansarinn hafði sagt í viðtali við blaðamanninn, en það var hljóðritað. Dansarinn staðfesti hins vegar að ummælin væru rétt efnislega og gaf jafnframt samþykki sitt fyrir birtingu viðtalsins.

Hæstiréttur kvað upp þann dóm að ummælin í viðtalinu fælu ekki í sér lýsingu á skoðunum eða gildismat heldur fullyrðingar um staðreyndir og þau rúmuðust ekki innan tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar. Þá tekur Hæstiréttur fram að með ummælunum sé Ásgeir Þór sakaður um refsiverða háttsemi.

Aðspurður hvers vegna Lovísa Sigmundsdóttir var ekki kölluð til yfirheyrslu, í ljósi þeirra alvarlegu ásakana sem fram komu í viðtalinu við hana, sagði Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglu höfuðborgarsvæðisins, að lögregla hefði fengið ábendingar um að vændi færi fram í tengslum við starfsemi Goldfinger. Þau mál hefðu ekki leitt til ákæru. Hann gæti ekki tjáð sig nánar um þetta mál.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert