Hellisheiði, Sandskeið og Þrengsli lokuð

Hellisheiði, Sandskeið og Þrengslavegur eru orðin ófær og vegirnir lokaðir. Enn eru einhverjir fastir í bifreiðum sínum á þessu svæði og eru björgunarsveitir frá Hveragerði, Þorlákshöfn, Selfossi og höfuðborgarsvæðinu að vinna að því að koma fólki til byggða. Þá er mjög slæm færð á milli Selfoss og Hveragerðis og varhugavert að vera á ferðalagi þar á milli.

Björgunarfélag Vestmannaeyja var einnig kallað út í kvöld íóveðursaðstoð. Mjög hvasst er í Eyjum og mun björgunarsveitin vera í viðbragðsstöðu á meðan það gengur yfir.

Samkvæmt upplýsingum Landsbjargar er mikið annríki hjá björgunarsveitum á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu. Björgunarsveitir eru að störfum á sjö bílum á Hellisheiði og í Þrengslum þar sem fjöldi bifreiða situr fastur. Tveir björgunarsveitabílar aðstoða vegfarendur milli Hveragerðis og Selfoss og björgunarsveit úr Vík er á leið á Sólheimasand þar sem fólk er í vandræðum, m.a. hefur einum bíl verið ekið útaf.

Veður er afar slæmt og taka aðgerðirnar langan tíma fyrir vikið. Á Hellisheiði er vindur 22 m/sek og á Stórhöfða í Vestamannaeyjum 40 m/sek.

Í tveimur tilvikum í kvöld hafa björgunarsveitir aðstoðað fólk sem var með ung börn í bílum sínum niður af Hellisheiði. Slysavarnafélagið Landsbjörg vill brýna fyrir fólki að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu og þá eingöngu á vel búnum bílum.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er óveður undir Eyjafjöllum og á Mýrdalssandi.

Hálkublettir og snjókoma er á Reykjanesbraut, og öllu Reykjanesinu.

Á Vesturlandi eru vegir víða auðir. Hálkublettir og éljagangur er á norðanverðu Snæfellsnesi og snjóþekja og
skafrenningur á Fróðárheiði. Skafrenningur er á Holtavöðuheiði.

Á Vestfjörðum er hálka, hálkublettir og skafrenningur. Þungfært og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði.

Á Norðurlandi er víða hálka eða hálkublettir. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Vegurinn yfir Hólasand ófær og
vegna slæms veðurútlits stendur ekki til að opna þar fyrr en eftir helgi.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja. Breiðdalsheiði er ófær.

Á Suðausturlandi eru vegir víðast hvar auðir. Einhver krapi og éljagangur er frá Vík að Kirkjubæjarklaustri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert