Gerði Alþingi grein fyrir sparisjóðaaðgerðum

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, gerði Alþingi í dag grein fyrir þeim aðgerðum, sem gripið var til gagnvart SPRON og Sparisjóðabankans um helgina. 

Gylfi sagði m.a., að að hefði verið óskandi, að hægt hefði verið að tilkynna starfsmönnum fyrirtækjanna um aðgerðirnar fyrr en gert var en það hefði ekki reynst unnt. Af tæknilegum ástæðum hefði þurft að færa innistæður viðskiptavina SPRON til Kaupþings aðfaranótt sunnudags og því hefði orðið að skýra frá niðurstöðunni með stuttum fyrirvara.

Hann sagði, að eftir þessar aðgerðir væru stjórnvöld farin að sjá til lands í þeirri endurskipulagningu, sem nú stæði yfir.  Víst ætti eftir að vinna mikið verk og ekki allt skemmtilegt en útlit væri fyrir að það takist, að endurreisa íslenskt fjármálakerfi með heilbrigðan efnahag. Þótt ekkert hafi bent til þess í haust gæti Ísland nú orðið með  fyrstu þjóðum til að endurskipuleggja sitt fjármálakerfi og losa það við þau vandamál sem urðu því að falli. 

Umræða stendur nú yfir um tilkynningu viðskiptaráðherra.  Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði m.a. að það væri ekki fólki bjóðandi að þurfa að heyra af örlögum sínum í beinni sjónvarpsútsendingu líkt og gerðist varðandi starfsfólk SPRON og Sparisjóðabankans sl. laugardag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert