Eigið fé Strætó bs. neikvætt um 57% af eignum

Við lok árs 2008 var eigið fé Strætó bs. neikvætt sem nemur 57% af heildareignum byggðasamlagsins og umtalsverðar kostnaðarhækkanir og vaxtagjöld eru framundan. Þetta kom fram á fundi borgarráðs í dag þar sem fjallað var um fjárhagsstöðu Strætó. 

Tap á rekstri félagsins var 353 milljónir króna á síðasta ári og eigið fé var neikvætt um 638 milljónir króna.

Fram kemur í bókun borgarráðsfulltrúa Vinstri grænna og Samfylkingar, að mjög hafi  sigið á ógæfuhliðina í rekstri og fjármögnun félagsins undanfarin ár og staðan sé grafalvarleg.

Borgarráðsfulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks létu bóka, að bregðast verði við stöðunni með sameiginlegum lausnum allra sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, enda fyrirtækið í eigu þeirra allra. Meirihlutinn í Reykjavík hafi ítrekað lagt áherslu á aðkomu minnihlutans að stjórn fyrirtækisins, en þurfi til þess stuðning stjórnar Strætó bs. og fulltrúa annarra sveitarfélaga á þeim vettvangi.

Ólafur F. Magnússon, fulltrúi F-lista, lét bóka að málið undirstrikaði  nauðsyn þess að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert