Mál slökkviliðsmanns í athugun

Vestmannaeyjar
Vestmannaeyjar mbl.is/GSH

Mál slökkviliðsmanns, sem játað hefur aðild að íkveikju í Vestmannaeyjum, er í athugun og ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um hvort honum verði vikið úr slökkviliðinu, að sögn Ragnars Baldvinssonar slökkviliðsstjóra.

Slökkviliðsmaðurinn er á meðal þriggja manna sem hafa játað mismikla aðild að íkveikjunni. Þeim var sleppt úr haldi í gærkvöldi eftir játninguna og ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um ákæru.

Tveir mannanna eru á tvítugsaldri og sá þriðji er að verða sautján ára. Þeir eru allir í Björgunarfélagi Vestmannaeyja.

Ragnar Baldvinsson slökkviliðsstjóri staðfesti að einn mannanna væri í slökkviliðinu en sagði að ekki væri hægt ákveða strax hvort manninum yrði vikið úr slökkviliðinu. Málið þyrfti að fara í ákveðið ferli. Ragnar sagði ekkert hæft í fréttum um að annar af þremenningunum hefði sótt um inngöngu í slökkviliðið. Hann hefði aðeins fengið að taka þátt í nokkrum æfingum.

Mennirnir játuðu að hafa kveikt í rútu við bátaskýli björgunarfélagsins aðfaranótt miðvikudags. Í skýlinu voru meðal annars geymdir flugeldar, björgunarbátar og annar búnaður félagsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert