Fréttaskýring: Samræmd úrræði vegna greiðsluerfiðleika

Viðskiptaráðherra og félagsmálaráðherra staðfestu samning um greiðsluúrræði húsnæðislána við fulltrúa …
Viðskiptaráðherra og félagsmálaráðherra staðfestu samning um greiðsluúrræði húsnæðislána við fulltrúa fjármálastofnana. mbl.is/Heiddi

Fólk sem lendir í erfiðleikum með að greiða af húsnæðislánum getur gengið að samræmdum úrlausnum í viðskiptabönkum, sparisjóðum, lífeyrissjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum. Úrræðin eru þau sömu og háð sömu skilyrðum og reglur Íbúðalánasjóðs kveða á um. Boðaðar eru hliðstæðar aðgerðir fyrir þá sem eru með íbúðalán í erlendri mynt.

Í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að húsnæðislán viðskiptabankanna verði færð til Íbúðalánasjóðs eða „með öðrum hætti tryggt að greiðsluvandaúrræði Íbúðalánasjóðs verði að fullu virk gagnvart fasteignaveðlánum einstaklinga hjá ríkisbönkunum“. Síðarnefnda leiðin er farin með samkomulagi stjórnvalda við fjármálafyrirtækin sem undirritað var í gær.

Íbúðalánasjóður hefur þegar keypt íbúðalán Sparisjóðsins í Keflavík og stjórnendur fleiri sparisjóða hafa átt í óformlegum viðræðum við sjóðinn um slíkt hið sama. Guðmundur Bjarnason, forstjóri Íbúðalánasjóðs, tók fram við athöfnina í gær að hann liti ekki svo á að þetta samkomulag útilokaði slíka samninga.

Ábyrgt skref

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félags- og tryggingamálaráðherra bindur vonir við að samkomulagið skili árangri, enda vel til þess fallið að eyða óöryggi og óvissu einstaklinga um sinn hag.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra telur að samkomulagið sé gott og ábyrgt skref í þá átt að taka á vanda þeirra heimila sem eigi og muni eiga í erfiðleikum með að standa í skilum með íbúðalán. „Það gengur mjög langt til þess að koma til móts við þarfir heimilanna en nær þó að gera það á þann hátt að það stefnir ekki stöðugleika og fjárhag lánastofnana í hættu,“ segir Gylfi.

Ekki hefur verið metið hvað þessi greiðsluúrræði kosta fjármálafyrirtækin og lífeyrissjóðina. Viðskiptaráðherra upplýsti að ekki væri gert ráð fyrir beinu framlagi úr ríkissjóði. Í samkomulaginu er ekki gert ráð fyrir afskriftum skulda.

Jóna Björk Guðnadóttir, lögfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, segir að fyrirtækin hafi teygt sig mjög í átt að viðskiptavinum sínum til að gera þeim kleift að standa við skuldbindingar sínar. Aðferðirnar séu samræmdar með samkomulaginu og viðskiptavinir geti gengið að því vísu að fá sambærileg úrræði og Íbúðalánasjóður býður upp á.

Óskað eftir undanþágu

Samkomulagið tekur ekki til íbúðalána í erlendri mynt. Viðskiptaráðherra upplýsti í gær að unnið væri að hliðstæðu samkomulagi sem tæki sérstaklega á vanda þeirra sem þannig lán skulda.

Tekið er fram í samkomulaginu að það hindri ekki að fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóðir geti veitt viðskiptavinum sínum frekari greiðsluerfiðleikaúrræði.

Samkomulag stjórnvalda og fjármálafyrirtækja felur í sér samræmingu á viðskiptaskilmálum keppinauta en óskað verður eftir undanþágu Samkeppniseftirlitsins. Gylfi Magnússon telur að samráðið sem í þessu felist sé réttlætanlegt og segist ekki geta ímyndað sér annað en um þetta geti náðst víðtæk sátt.

Breyting skulda

Úrræði fjármálafyrirtækja vegna greiðsluerfiðleika eru þau sömu og hjá Íbúðalánasjóði. Greiðsluerfiðleikar þurfa að stafa af óvæntum tímabundnum erfiðleikum og að skuldbreytingar eða önnur úrræði dugi til að koma þeim á réttan kjöl aftur.

Úrræðin eru þessi:

  • Unnt er að semja um að gera upp vanskil á allt að 18 mánuðum.
  • Boðið er upp á skuldbreytingu vanskila með því að bæta þeim við höfuðstól eða gefa út nýtt bréf.
  • Lántakandi getur óskað eftir frestun á greiðslu afborgana, vaxta og verðbóta í allt að ár í senn, samtals í þrjú ár.
  • Mögulegt er að semja um lengingu lánstíma.
  • Með frystingu greiðslna er komið til móts við lántakendur sem ekki geta selt íbúð sem þeir áttu fyrir.
  • Fólk getur búið í íbúðum í allt að þrjá mánuði eftir sölu á nauðungaruppboði.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert