Valgerður kvaddi

Valgerður Sverrisdóttir.
Valgerður Sverrisdóttir. mbl.is/Golli

Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, kvaddi á Alþingi í dag í lok þingfundar en hún hefur tekið þá ákvörðun að bjóða sig ekki fram til Alþingis á ný.

Valgerður hefur verið þingmaður í 22 ár og á þeim tíma gegnt ráðherraembættum, embætti formanns Framsóknarflokksins og embætti formanns þingflokksins. Valgerður sagðist hefðu viljað hætta við aðrar aðstæður en nú eru í þjóðfélaginu en sagðist ekki vera í vafa um að Íslendingar myndu vinna sig út úr þeim vanda sem við væri að glíma.

Guðbjartur Hannesson, forseti Alþingis, þakkaði Valgerði fyrir hennar störf á Alþingi. Sagði Guðbjartur að Valgerður væri í hópi þeirra kvenna sem fyrstar hefðu skipað sér í forustusveit íslenskra stjórnmála sem þingmaður, ráðherra og flokksformaður. 

Þingfundi var frestað laust eftir klukkan 17 en þá hafði umræða um stjórnskipunarlög staðið yfir frá því um hádegi. Þá voru 22 á mælendaskrá, aðallega þingmenn Sjálfstæðisflokksins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert