Vilja útrýma fátækt barnafjölskyldna

Nefndin kynnir tillögur sínar í morgun.
Nefndin kynnir tillögur sínar í morgun. Mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Endurskoðun barnalaga, rýmri heimildir sýslumanna og aukinn réttur forsjárlausra foreldra voru meðal þeirra tillagna sem nefnd félags- og tryggingarmálaráðherra um stöðu barna í mismunandi fjölskyldugerðum kynnti í morgun.

Tillögurnar vörðuðu sifjamál og félagslega stöðu barna, fjárhagslega stöðu barnafjölskyldna og fræðslumál.

Helstu tillögur varðandi sifjamál og félagslega stöðu barna voru að dómurum verði veitt heimild til að dæma foreldrum sameiginlega forsjá barns gegn vilja annars foreldris sé það talið þjóna hagsmunum barnsins. Einnig er lagt til að maður sem telji sig vera föður barns geti höfðað ógildingar-/véfengingarmál þegar um feðrað barn er að ræða, afnumið verði gildandi fyrirkomulag um að taki fráskilið foreldri með barn upp sambúð á nýjan leik fái makinn sjálfkrafa forsjá yfir barninu. Þess í stað þurfi að sækja um forsjá. Þá er lagt til að sýslumenn fái rýmri heimild til að úrskurða um umgengni barna við afa sína og ömmur til að börn njóti aukinna möguleika til umgengni við þau. Einnig að barn eigi rétt á umgengni við stjúpforeldri og sýslumenn fái heimild til að úrskurða um umgengni við stjúpforeldri eftir skilnað eða sambúðarslit við foreldri.

Þá leggur nefndin til að tekið verði upp nýtt kerfi barnatrygginga sem komi í stað barnabóta, mæðra- og feðralauna, barnalífeyris og viðbótar við atvinnuleysisbætur vegna barna. Samkvæmt útreikningum myndi nýja kerfið ekki auka útgjöld ríkisins en árlegur kostnaður þess er um 14 milljarðar króna. Að sögn Ágústs Ólafs Ágústssonar, formanns nefndarinnar, er markmiðið nýja kerfisins að útrýma fátækt barnafjölskyldna. Miðað sé við að öllum barnafjölskyldum verði tryggð ákveðin fjárhæð til lágmarksframfærslu óháð því hvaðan tekjur fjölskyldunnar koma. Barnatryggingar yrðu tekjutengdar og myndu skerðast hjá fólki með tekjur umfram meðalráðstöfunartekjur. Hagur tekjulágra hópa myndi barna og kerfið nýast vel barnmörgum fjölskyldum.

Að lokum er lagt til að gott aðgengi að fjölskylduráðgjöf verði tryggt. Þeir sem hyggist slíta sambúð eða hjúskap með börn verði skyldaðir til að fara í viðtöl til að fá fræðslu og ráðgjöf hjá fagaðila um samskipti eftir skilnað, óháð því hvort þeir séu sammála eða ekki. Þá verði sjúfjölskyldum veitt sérstök fræðsla og stuðningur.

Björg Vilhelmsdóttir sat í fjárhagshóp nefndarinnar, sem sá um barnatryggingakerfið, fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hún benti á að í barnatryggingakerfinu myndu greiðslur til einstæðra öryrkja lækka. „Þegar um er að ræða nýjungar er alltaf viðkvæmt þegar eitthvað skerðist,“ sagði hún. Hún sagði að í núverandi kerfi væru öryrkjar mjög vel settir, fengju bæði óskertar barnabætur og barnalífeyri. „Nefndin tekur sérstaklega fram að hún telur að lífeyrisþegum verði bætt upp þessi lækkun á annan hátt en í formi sérstakra barnagreiðslna. Við teljum að það eigi ekki að flokka börn eftir því í hvaða stöðu foreldrarnir eru.“ Í skýrslunni segir að nefndin telji mikilvægt að hverfa ekki frá því sjónarmiði að tryggja öllum barnafjölskyldum lágmarksframfærslu og að sá stuðningur verði veittur óháð stöðu foreldranna eða hvaðan tekjur þeirra eru fengnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert