Eplauppskeran góð

Þorsteinn Sigmundsson við eplatréð góða sem hann myndi gjarnan vilja …
Þorsteinn Sigmundsson við eplatréð góða sem hann myndi gjarnan vilja vita nafnið á.

Það er blómlegt um að litast í gróðurhúsinu í Elliðahvammi þessa dagana. Ávaxtatré eru þar í blóma með tilheyrandi ilmi, sem ekki er laust við að minni á hin ýmsu lönd Evrópu á vormánuðum.

Í þessu íslenska gróðurhúsi rækta Þorsteinn Sigmundsson og kona hans, Guðrún Alísa Hansen, bláberjarunna, kirsuberjatré, peru- og plómutré. Og ekki má gleyma eplatrjánum. Af þeim fá hjónin góða uppskeru. Sérstaklega eitt yrkið sem skilað hefur allt að 130 fullþroskuðum eplum um uppskerutímann, eða tæpum 30 kg. Góð búbót það.

„Þetta er frábært yrki,“ segir Þorsteinn. „Við erum með tuttugu kvæmi af eplatrjám, sína hverja tegundina, en þetta sker sig úr er kemur að afköstum.“ Eplin segir hann bragðgóð og geymast vel, en trén eru hjónin með í köldu gróðurhúsi.

Vorið lofar góðu

Þau Þorsteinn og Guðrún Alísa hófu tilraunir með ávaxtatrjáræktina fyrir um átta árum og er eplatréð góða frá þeim tíma. Hverrar tegundar það er vita þau hins vegar ekki.

„Við týndum merkimiðanum af trénu og vitum ekki hvað það heitir.“ Síðan hefur verið passað vel upp á allar merkingar. Þekki einhver lesandi hins vegar tréð á myndinni hér að ofan tæki Þorsteinn glaður á móti þeim fróðleik.

Upphaflega voru þau með lítið heimasmíðað gróðurhús, en fyrir um tveimur árum settu þau aukinn kraft í ræktunina og byggðu nýtt hús yfir trén. Flest ávaxtatrén hafa komið til eftir byggingu nýja hússins og segir Þorsteinn þá ræktun vera á þróunarstigi. „Við erum engu að síður byrjuð að fá nokkra uppskeru og þetta vor lofar mjög góðu því að það er góð blómgun í öllu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert