Þjóðin vill fara í aðildarviðræður

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/ Rax / Ragnar Axelsson

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að niðurstöður alþingiskosninganna megi túlka þannig að þjóðin vilji fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, tekur í sama streng.  

„Niðurstaða kosninganna er mjög sterk krafa kjósenda um að látið verði reyna á aðildarviðræður við Evrópusambandið. Í öðru lagi er mjög sterk krafa um að standa vörð um velferðarkerfið og að við fetum okkur lengra í átt til velferðarkerfis að norrænni fyrirmynd. Í þessu felst einnig ákveðið uppgjör við Sjálfstæðisflokkinn og hans ábyrgð á efnahagsmálunum undanfarin átján ár,“ segir Gylfi.

Gylfi segir alveg ljóst að verið er að kalla eftir breytingum. „Alþýðusambandið hefur verið þeirrar skoðunar að látið verði reyna á aðildarviðræður. Það sé eina leiðin út úr núverandi gjaldeyrishöftum og skammtastefnu,“ segir Gylfi.

Krafa kjósenda að flokkarnir nái lendingu í Evrópumálum
Gylfi segist ekki hafa áhyggjur af því að stjórnarmyndunarviðræður muni taka langan tíma. Samfylkingin sé í lykilstöðu í þessari stjórnarmyndun og allt bendi til þess að það sé mikill vilji til að halda samstarfinu við Vinstri græna áfram. Það sé krafa kjósenda að flokkarnir nái saman um Evrópumálin. „Velgengni þessara tveggja flokka endurspeglar tvo hluti sem kjósendur vilja. Annars vegar aðildarviðræður við Evrópusambandið og hins vegar áherslu á velferðarmálin,“ segir Gylfi.  

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, tekur undir með Gylfa Arnbjörnssyni og segir að hægt sé að lýsa niðurstöðu kosninganna þannig að þjóðin vilji aðildarviðræður. „Það voru mín viðbrögð að það væri ekki hægt að túlka niðurstöðurnar með neinum öðrum hætti en að þarna væri komið skýrt ákall um að skoðað yrði nánar hvað aðildarsamningur gæti haft í för með sér,“ segir Finnur.

Ekki trúverðug stefna í peningamálum
Finnur segir að fylgishrun Sjálfstæðisflokksins hafi verið fyrirséð. „Það voru allmörg mál sem hafa reytt fylgi af flokknum. Þetta er í einhverjum skilningi ekkert óeðlileg niðurstaða miðað við allar kringumstæður. Flokkurinn þarf að fara í ansi mikla skoðun bæði á stefnumálum og innra starfi,“ segir Finnur. Hann segir að leið einhliða upptöku evru sé vandrötuð. Hann hafi sjálfur verið í hópnum sem fór til Brussel og hann hafi margoft heyrt nei við þeirri spurningu hvort hægt væri að taka gjaldmiðilinn upp einhliða. „Ég er þeirrar skoðunar að stærstu mistök Sjálfstæðisflokksins voru að móta sér ekki trúverðuga stefnu í peningamálum. Þessi leið einhliða upptöku er ekki trúverðug,“ segir Finnur.

„Mjög stór hluti atvinnulífsins virðist vera þeirrar skoðunar að það þurfi að ganga til aðildarviðræðna. Það var ekki verið að veita því brautargengi í neinum öðrum flokki en í Samfylkingunni. Ég vænti þess að Samfylkingin sé að fá umtalsvert fylgi bara út á það. Hér þarf að byggja upp fjölbreytt atvinnulíf til framtíðar og það verður ekki gert með íslensku krónuna til langframa. Þess vegna þarf að leita annarra trúverðugra leiða til að skipta hér um gjaldmiðil og koma á stöðugleika.  Það virðist vera mat allmargra að það verði eingöngu gert með því að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið. Stór hluti kjósenda virðist því vera á sömu skoðun og atvinnulífið,“ segir Finnur.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert