Auglýsing SÍ vekur hörð viðbrögð

Samtök iðnaðarins
Samtök iðnaðarins

„Við höfum fengið nokkur viðbrögð sem lúta að því að fólk finnst þessi auglýsing ógeðsleg og veki hughrif sem ekki eru æskileg,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, um blaðaauglýsingu SI sem birt er í Fréttablaðinu í dag. 

Í auglýsingunni stendur sveittur karl með sprautu yfir nöktum og glenntum fótleggjum sem greinilega tilheyra konu. Yfirskrift myndarinnar er: „Velur þú fagmann eða fúskara?“ sem er, að mati Femínistafélagi Íslands, skýr tilvísun í ólöglegar fóstureyðingar.

Félagið hefur sent stjórn SI og forsvarsmönnum ályktun þar sem bent er á þessi hugrenningartengsl.

„Ólöglegar fóstureyðingar hafa sem betur fer ekki verið nauðsynlegar á Íslandi í langan tíma. Á þeim tímum og stöðum þar sem þær eru framkvæmdar eru þær neyðarúrræði kvenna sem hafa í för með sér líkamlegar og andlegar þjáningar. Femínistafélag Íslands fordæmir harðlega að Samtök Iðnaðarins skuli nýta sér neyð kvenna í auglýsingum,“ segir m.a. í ályktun félagins. 

Að sögn Jóns Steindórs hefur SI einnig borist athugasemdir í þá veru að verið sé að varpa rýrð á læknastéttina. 

„Sú gagnrýni kom okkur nokkuð á óvart, því okkar tilgangur er að sjálfsögðu ekki að varpa rýrð læknastéttina nema síður sé,“ segir Jón Steindór og bætir við: „Konur sækja til læknis og þurfa að vera í þessari stellingu út af ýmsu öðru heldur en vegna fóstureyðingar. Þannig að það var alls ekki það sem við vorum að vísa til, þ.e. að þarna væri fúskari að eyða fóstri. "

Spurður hver hafi hannað auglýsingu og tekið ákvörðun um birtingu hennar segir Jón Steindór auglýsinguna hannaða af Hvíta húsinu, en að hann hafi sem framkvæmdastjóri SÍ samþykkt birtingu hennar.

Jón Steindór segist ekki vilja ganga svo langt að kalla auglýsinguna mistök. „En það er ljóst að hún þjónar ekki tilgangi sínum ef hún stuðar marga. Auðvitað má segja að það er oft erfitt að gera hluti þannig að þeir séu algjörlega óumdeildir, sérstaklega þegar þú vilt vekja sterka athygli,“ segir Jón Steindór og tekur fram að forsvarsmenn SÍ hyggist í dag endurskoða hvort auglýsingin verði birt aftur. „Því við höfum að sjálfsögðu ekki áhuga á að særa neinn eða móðga“

Jón Steindór Valdimarsson
Jón Steindór Valdimarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert