Viku bætt við grásleppuvertíð

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur fallist á beiðni Landssambands smábátaeigenda um að bæta einni viku við yfirstandandi grásleppuvertíð. Heimilt verður að veiða í 62 daga í stað 55 daga.

Í bréfi Landssambands smábátaeigenda kemur fram að ástæður beiðninnar séu m.a. miklar ógæftir sem valdið hafa veiðitapi og tjóni á veiðafærum, sem í mörgum tilfellum hefðu glatast með öllu. Þá beri að líta til þess að mikil eftirspurn sé nú eftir grásleppuhrognum og verð í sögulegu hámarki.

Þá benti Landssamband smábátaeigenda á að heildarmagn sem komið væri að landi á vertíðinni væri nú fimmtungi minna en á sama tíma í fyrra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert