Hvalveiðiráðið í sjálfheldu

Íslenskt skip dregur hval að landi í Hvalfirði.
Íslenskt skip dregur hval að landi í Hvalfirði. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Tvær blokkir hafa nú myndast í Alþjóðahvalveiðiráðinu og kemur hvor um sig í veg fyrir að hægt verði að taka ákvarðanir á fundi ráðsins í Portúgal í júní næstkomandi. 32 ríki fylgjandi hvalveiðum sendu fulltrúa sína á fund í Tokyo í síðustu viku og var útkoman úr þeim fundi að þau muni öll kjósa eftir sömu línu í júní.

Þessi ákvörðun er talin vera viðbrögð við því að ríki andsnúin hvalveiðum, t.d. lönd Evrópusambandsins, ætla sér nú þegar að kjósa sameiginlega. Þetta þýðir að sjálfheldan sem Alþjóðahvalveiðiráðið er í heldur áfram, þar sem taka þarf ákvarðanir þar með auknum meirihluta. Sagt er frá þessu í ástralska vefmiðlinum The Age, en þess má geta að í Ástralíu er ein mesta andstaða við hvalveiðar í öllum heiminum.

Afstaða Íslands, sem átti fulltrúa á fundinum í Tokyo, hefur samkvæmt þessu ekki breyst með nýrri ríkisstjórn eða nýjum sjávarútvegsráðherra, að sögn Árna Finnsonar, formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Greenpeace náttúruverndarsamtökin hafa strax stimplað fyrirætlun hvalveiðiríkjanna sem "alvarlegt skref aftur á bak" og ásaka hvalveiðiþjóðir um að stefna í hættu friðinum sem nýlega hefur komist á innan Alþjóðahvalveiðiráðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert