„Skuldsetning hugarfarsins alvarlegasta ógnin"

Guðmundur Gunnarsson, formaður RSÍ.
Guðmundur Gunnarsson, formaður RSÍ. mbl.is

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, segir í ræðu sinni í tilefni af baráttudegi verkalýðsins, að alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er skuldsetning hugarfarsins þar sem vantrú ríkir á öllu sem viðkemur einkaframtaki og gróða.

 Guðmundur segir einnig að það hafi verið Ríkið sem hafi brugðist og peningamenn nýtt sér svigrúmið. Enda sé það hlutverk Ríkisins er að tryggja stöðu almennings, setja leikreglur og sjá til þess að þeim sé fylgt.  Ríkið hafi hins vegar gleymt sér í glysboðum Þórðargleðinnar.  

Þá segir hann að Ísland verði að sætta sig við að fara að reglum í samskiptum þjóða.  Hafi Íslendingar notið sérréttinda séu þeir sannarlega búnir að eyðileggja þann möguleika með því framferði sem íslenskur fjármálaheimur hafi sýnt.

Guðmundur segir vexti vera að lama allt þjóðfélagið og að þeir séu stærsta einstaka ástæðan fyrir því hversu illa er komið fyrir okkur. Þá segir hann hugmyndir um skattahækkanir varasamar og kalla á enn meiri vanskil og draga kjark úr fólki.

Ræða Guðmundar fer í heild hér á eftir: 

„Félagar til hamingju með daginn. Ég þakka það tækifæri að fá að ræða við ykkur í dag. 

Þetta er búið að vera langt ár frá 1. maí 2008, mjög langt.  Forsendur kjarasamninga brustu síðasta sumar.  Bankakerfið hrundi á einni viku í haust.  Gengi íslensku krónunnar lækkaði meira en nokkurn gat órað fyrir.  Skuldir urðu að óviðráðanlegu skrímsli.  Það var Ríkið sem brást og peningamennirnir nýttu sér svigrúmið.  

Hlutverk Ríkisins er að tryggja stöðu almennings, setja leikreglur og sjá til þess að þeim sé fylgt.  En Ríkið gleymdi sér í glysboðum Þórðargleðinnar.  Stjórnvöld lögðu til hliðar samkennd og jöfnuð, og létu markaðshyggjuna ráða för. Afleiðingarnar eru mikil verðbólga.  Himinháir vextir og minnkandi kaupmáttur.  Miklir rekstrarerfiðleikar fyrirtækja og mesta atvinnuleysi sem við höfum séð um áratugaskeið.

 Til viðbótar við atvinnuleysi er búið að minnka starfshlutföll og lækka laun á hjá stórum hluta íslenskra launamanna.  Allt þetta er gert á sama tíma og svigrúm launafólks til þess að taka við skerðingum eða uppsögnum var ekkert.  Mikil óvissa ríkir um tilvist margra fyrirtækja og atvinnuöryggi er ekkert og allir bíða. Aflögufær fyrirtæki bíða með framkvæmdir.  Við bíðum eftir trúverðugri stefnu stjórnvalda.  Við höfum margoft heyrt yfirlýsingar um að stjórnvöld ætli að styðji við atvinnulífið og vinna með okkur.  En veigamestu aðgerðirnar hafa verið vaxtahækkanir og gjaldeyrishöft, sem virka þveröfugt.  

Brýnasta hagsmunamál okkar er að koma atvinnulífinu af stað með því að koma bankakerfinu í gang.  Lækka vexti, skapa störf og auka tekjur heimilanna og þá um leið hagkerfisins.  Vaxtastefnan hefur verið snara um háls heimila og atvinnulífs.  Háir vextir eru að lama allt þjóðfélagið og eru stærsta einstaka ástæðan fyrir því hversu illa er komið fyrir okkur. Við blasir að minnka verður gríðarlegan halla þjóðarbúsins með miklum og sársaukafullum niðurskurði.  Samfara því verður að auka tekjur ríkissjóðs.  

Hugmyndir um skattahækkanir eru varasamar og kalla á enn meiri vanskil og draga kjark úr fólki.  Ekki síst unga fólkinu, sem vill vinna meira til að koma sér út úr skuldafeni.  Mikilvægt er að gefa atvinnulífinu kost á því að auka verðmætasköpun með fjölgun starfa og greiða þannig meiri skatta. Helsta hlutverk stjórnvalda á að vera að hvetja til fjárfestinga. Til þess að minnka vaxtagreiðslur á erlendum skuldum skiptir miklu að ríkisfjármálin verði tekin föstum tökum á næstu fjárlagaárum.

 Við megum engan tíma missa.  Það þarf pólitískan kjark til þess að taka á vandanum og mun reyna mikið á þá ríkisstjórn sem verður við stjórnvölinn næstu misseri.  En það mun örugglega reyna einnig mikið á verkalýðshreyfinguna við að vernda stöðu launafólks og velferðarkerfisins.  Nú eru gullnir tímar yfirboða og fagurgala tækifærissinna, sem hafa nýtt sér stöðuna til þess að arka fram á sjónarsviðið með ómerkilegar skyndilausnir.  

Ísland verður að sætta sig við að fara að reglum í samskiptum þjóða.  Við njótum engra sérréttinda.  Ef við höfum átt rétt á því, þá erum við sannarlega búinn að eyðileggja þann möguleika með því framferði sem íslenskur fjármálaheimur sýndi.  Við verðum einnig að horfast í augu við þann veruleika að íslensk stjórnvöld voru virkir þátttakendur í þeirri Þórðargleði. Íslenskir ráðherrar, ásamt forseta og seðlabankastjóra fóru um heiminn og réttlættu þessar athafnir.  

Sumar þessara ráðherraferða voru meir að segja farnar nokkrum vikum áður en allt hrundi, þó svo fyrir lægi hvert stefndi.  Íslenskir ráðherrar voru þá að reyna að fá enn meiri peninga í hítina, en í skúffum þeirra lágu skýrslur um að allt væri að hrynja.  Enda var svo komið í haust að frændþjóðir okkar sögðu hreint og klárt; „Við lánum ykkur ekki krónu nema í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.“  

Íslendingar verða að átta sig á því að við tökum ekki einhliða ákvarðanir um að strika út erlendar skuldir.  Það verður að gera í samræmi við alþjóðareglur.  Við verðum að horfast í augu við að við töpuðum 80 milljörðum dollara af erlendu lánsfé.  Við erum rúinn öllu lánstrausti og verðum að byggja það upp að nýju. 

Íslensk orka mun ekki falla í verði, þvert á móti munu verðmæti hennar margfaldast á komandi árum. Mörg fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að koma hingað með framleiðslu á borði við sólarrafhlöður og aflþynnur eins og á að fara framleiða á Akureyri.  Koltrefjaverksmiðja er áhugaverður kostur sem okkur stendur til boða.  Það er hröð þróun í rafgeymum og rafbílar munu taka við.  

Það er ekki ólíklegt að eftir 10 ár verði raforka a.m.k. helmingur þeirrar orku sem íslenskur bílafloti nýtir.  Einnig hafa stór og öflug fyrirtæki sýnt á huga á að setja hér upp risavaxin gagnaver.  En það er eitt sem við verðum að átta okkur á það eru takmörk fyrir hversu mikla raforku við getum framleitt og við verðum að velja í hvað við ætlum að nýta hana. Við megum ekki selja hana alla strax. 

Mikil vinna hefur farið fram í verkalýðshreyfingunni við að finna lausnir á þeim bráðavanda sem við blasir til þess að íslenskt atvinnulíf komist aftur á rétta braut.  Það mun skipta miklu að öll heildarsamtök á vinnumarkaði efli samstarf sitt á tímum sem þessum erfiðum tímum.  Við verðum að ná víðtækri sátt um skammtímaaðgerðir en um leið að horfa til framtíðar.  

Við verðum að taka á aðsteðjandi vanda, samfara því að byggð verði upp trúverðug framtíðarsýn. Við höfum lagt fram drög að stöðugleikasáttmála.  Það er okkur lífsnauðsyn að komast út úr skuldavanda ríkissjóðs á sem allra stystum tíma.  Stefna á að fyrir árslok 2010 verði verðbólga minni en 3%. Hallarekstur hins opinbera minnki og vextir hafi lækkað svo mikið að vaxtamunur gagnvart evrusvæðinu verði minni en 4% og gengi evru verði á bilinu 130-140 kr. 

Til lengri tíma verður að líta til þess að hér verði gjaldmiðill sem bíður upp á stöðugleika. Verðbólga verði það lág að vextir verði innan við 4,5% og verðtrygging afnuminn.  Það þarf að skapa 20 þús. störf á næstu fjórum árum svo atvinnuleysi verði komið niður fyrir 5%.  

Ef það tekst munum við á árinu 2013 hafa endurheimt þau lífskjör sem við bjuggum við á síðasta ári.  Eigi þessi markmið að nást verðum við að endurheimta traust og tiltrú á íslenskt efnahagslíf, þannig að fjárfestar setji fjármuni til uppbyggingar hér á landi og lánaviðskipti við erlenda banka komist í eðlilegt horf.  Það eru skiptar skoðanir um aðild að Evrópusambandinu.  

Í kjölfar mikillar ESB umræðu innan samtaka launamanna á liðnum árum var samþykkt á síðasta ársfundi ASÍ að beita sér fyrir aðild Íslands að ESB og upptöku evru sem gjaldmiðils á Íslandi.  Helstu forsendur þessarar niðurstöðu er að skapa það umhverfi að atvinnulíf geti vaxið og dafnað og myndað ný störf.  Þetta snýst um eins og ég hef komið að ná niður verðbólgu og vaxtastigi. Krónan hefur reynst okkur ákaflega dýrkeypt. Hún hefur stuðlað að miklum sveiflum vegna agalausrar hagstjórnar.  Sveiflurnar hafa kallað á að meðaltali 3,5% hærri vexti en þeir þyrftu að vera og verðtryggingu. 

Nærtækasti kosturinn er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta reyna á hvert við komumst í slíkum viðræðum um forræði í auðlindamálum.  Ef ekki verður komið með ásættanlegum hætti til móts við kröfur okkar, þá verður vitanlega engin samningsniðurstaða.  En það eru nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort við eigum kost á ásættanlegri lausn. 

Alltof mörg mistök hafa verið gerð.  Alltof margir hafa blindast af sjálfshóli.  Allir töluðu um hagnað og endalausan arð.  Skuldirnar voru lítið ræddar.  Ársreikningar bólgnuðu með stöðugu endurmati og klækjabrögðum.  Sjálfstraustið var slíkt að allt átti að verða að gulli í höndum íslendinga.  Jafnvel fyrirtæki sem höfðu aldrei skilað hagnaði og þóttu verðlítil erlendis voru keypt.  

Smám saman urðu þau að gulli, en reyndar einungis í íslensku bókhaldi.  Glópagulli.  Kapphlaup hefur staðið yfir um að hafa það sem best og þá gleymdust viðmið og raunsæi.  Skiljanlega vildum við trúa stjórnmálamönnunum og greiningardeildum bankanna um Íslenska efnahagsundrið.  Bankarnir héldu að okkur fullyrðingum á borð við; „Láttu okkur fá alla peningana þína og við skulum láta þá vinna fyrir þig.  Taktu svo lán hjá okkur fyrir öllu því sem þig hefur alltaf langað í. Eignastýring okkar sér um afborganirnar.“ Gildismat hefur breyst á undangengnum áratugum.  Hógværð hefur vikið fyrir öðrum gildum.

  Krafan hefur verið um endalausa velgengni.  Hún var sköpuð með Barbabrellum í bókhaldi og skammtíma hagræðingu.  Gróinn fyrirtæki voru bútuð niður og seld skúffufyrirtækjum, sem tóku lán og keyptu hlutabréf í sjálfum sér.  Eignir móðurfyrirtækja jukust í bókhaldi og sköpuðu rými til enn frekari skuldsetningar. Fjármunum var pumpað út íslenska hagkerfinu og fluttir í skattaskjól.  

Það er skoðun þessara manna að það sé hlutverk annarra að greiða skatta til samfélagsins og standa undir menntakerfinu, heilbrigðisþjónustunni og samgöngukerfinu.  Og það er annarra að greiða þær skuldir sem þeir skilja eftir sig. Gildið velgegni hefur í raun ekkert breyst.  Hún felst í góðri sátt við starfsfólk, umhverfið og samfélagið.  

Við megum ekki gleyma okkur og gefast upp.  Mesta hættan fyrir íslenskt samfélag er að frumkvæði og áræðni glatist.  Við þurfum að koma í veg fyrir að tækisfærissinnaðir stjórnmálamenn taki ákvarðanir á grundvelli skoðanakannana.  Það getur skapað einangrun Íslands.  

Siðferðið varð falt fyrir peninga.  Það varð óréttlæti að geta ekki haft það gott.  Tími lýðskrumarans rann upp og samfélagið orðið ranglátt.  Lausnir byggðar á upphrópunum þekkingarleysis voru á útsölu.  Lýðskrumarinn bauð hinn algilda sannleika, gegn því einu að hann væri settur til valda. 

Alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er skuldsetning hugarfarsins þar sem vantrú ríkir á öllu sem viðkemur einkaframtaki og gróða.  Við þurfum hugarfarsbreytingu ef atvinnulífið á að skapa 20 þúsund störf fyrir árið 2013.  Það gerist ekki með því að fjölga störfum hjá ríkinu, það gerist í atvinnulífinu. 

Við eigum að laða fram áræðni og frumkvæði hjá ungu og vel menntuðu fólk og við verðum að koma í veg fyrir að heil kynslóð ungs fólks hverfi til annarra landa. Við stöndum í dag á tímamótum og þurfum að kljást við risavaxið verkefni.  Við þurfum að endurskoða margt í okkar þjóðfélagi, m.a. að efla gagnrýna hugsun og finna leiðir til að efla sjálfstraust fólks í gegnum menntakerfið.  

Það má ekki gerast að vonleysi skjóti rótum meðal ungs fólks og langvinn heift nái að grafa um sig og efasemdir um tilveruna á Íslandi. Íslensk fyrirtæki skapa í dag um 70 þús. störf.  Það eru fyrirtæki í íslensku umhverfi sem verða að skapa þau störf sem þörf er á komandi árum.  Það er ekki hið opinbera sem skapar störf við verðmætan útflutning.  Það eru fyrirtækin í landinu.  Verkefnið er gríðarlegt og ábyrgðin mikil.  

Við getum með sameiginlegu átaki gert margt þótt við séum í afar þröngri stöðu. Þýðingarmesta verkefni okkar er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika, leita tækifæra í kreppunni.  Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum.  

Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfarinu; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi.  Við megum ekki missa þennan styrkleika niður.  Hvetjum ungt fólk til dáða hvort sem um er að ræða lista- og menningarstarfsemi, háskóla og framhaldsskóla og sköffum spennandi störf fyrir þetta unga fólk og alla þá sem misst hafa atvinnuna sem allra fyrst. 

Ef við fáum umhverfi stöðugleika sem talar ekki niður frumkvæði einstaklinga, vaxtastig í samræmi við nágrannalönd, eðlilega bankastarfsemi og haftalausan gjaldeyrismarkað þá getum við skapað 20 þúsund störf fyrir árið 2013.  En þá verðum við að taka höndum saman og ganga sameiginlega til lausnar á vandanum. Til hamingju með daginn"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert