Vill bráðaaðgerðir á morgun

„Það er ekkert við okkur að tala ef ekki verður gengið í þessar bráðaaðgerðir, helst strax á morgun,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands. Hann vill að stjórnvöld setji endurskipulagningu á skuldum heimilanna í forgang. ASÍ leggur til að ráðnir verði  a.m.k. 50 fjármálaráðgjafar til næstu 6 til 9 mánaða til að aðstoða fólk í greiðsluvanda og að þeirri kröfu verði vikið til hliðar að skuldum verði komið í skil, áður en greiðsluaðlögun eða aðstoð fæst.

Forseti ASÍ segir að ASÍ hafi allt frá því í nóvember í fyrra hvatt stjórnvöld til aðgerða til að aðstoða heimilin í landinu. Fyrir þrautseigju ASÍ hafi náðst að koma í gegn lögum um greiðsluaðlögun og annað sem getur komið skuldugum heimilum til bjargar. Framkvæmd laganna sé hins vegar ábótavant.

Áherslur ASÍ í viðræðum við stjórnvöld um stöðugleikasáttmála voru lagðar fram á fundi með stjórnvöldum í dag. Að mati ASÍ á að stefna að gerð þríhliða sáttmála um forendur stöðugleika, m.a. á grundvelli umsóknar um aðild að ESB og upptöku evru.

Þá sé brýnt að setja endurskipulagningu á skuldum heimilanna í forgang og umfram allt verði að auðvelda framkvæmdina á lögum um greiðsluaðlögun skulda. Það verði m.a. gert með því að tryggja að nauðsynlegar reglugerðir og verklagsreglur um framkvæmd verði gefnar út strax, þar sem tryggt verði m.a. að krafa um að lán verði sett í skil sem forsendu fyrir aðstoð verði vikið til hliðar. Þá fái Ráðgjafastofa um fjármál heimilanna, í samráði við héraðsdóm, að ráða a.m.k. 50 fjármálaráðgjafa til næstu 6-9 mánaða til að aðstoða fólk í greiðsluvanda. Loks verði farið í umfangsmikið kynningaátak með dagblaðaauglýsingum, bæklingum og fræðslufundum þar sem þau úrræði sem til staðar eru verði kynnt.

Gylfi segir almenning hreinlega ekki þekkja þau úrræði sem til staðar eru og fjármálastofnanir, jafnt og stjórnvöld eigi þar sök.

Vilja bjargráðasjóð heimilanna

Þá segir Gylfi að stofna verði Bjargráðasjóð heimilanna sem hafi forræði yfir afskriftareikningum banka og fjármálastofnana vegna skulda heimilanna. Vinna verði skipulega að því að endurskipuleggja fjárhag viðkomandi heimila.

„Ég hygg að skuldir heimilanna séu yfir 2000 milljarðar króna. Ætli það láti ekki nærri að settir séu 200 til 400 milljarðar króna á afskriftarreikninga og það er alveg ljóst að bankarnir munu þurfa að afskrifa lán vegna heimilanna. Við viljum að þessu sé safnað saman á einn stað og það sé unnið með þetta, bæði út frá ákveðnu jafnræði í aðkomunni og það sé unnið að því að koma fjárhag heimilanna í viðunandi horf. Það eru mörg úrræði til en það er algjörlega útilokað mál að það sé ekki verið að nota þau úrræði. Við sættum okkur ekki við það,“ segir forseti ASÍ.

Auka verður atvinnu

ASÍ leggur ennfremur áherslu á aukna atvinnu á næstu mánuðum. Það verður að gera með því að hraða og ýta á eftir mannaflsfrekum framkvæmdum og auglýsa útboð strax. Þá þarf að mati ASÍ að stofna fjárfestingarsjóður í samstarfi ríkisins, lífeyrissjóðanna og erlendra kröfuhafa til að koma að uppbyggingu atvinnulífsins. Loks þarf að ganga frá reglugerðum um framkvæmdina á endurgreiðslu VSK til sveitarfélaganna.

Fjölmargt fleira er nefnt í áhersluskjali ASÍ. Þar á meðal er kafli um velferðarkerfi vinnumarkaðarins, menntamál, heilbrigðismál, lífeyris- og tryggingamál og húsnæðismál.

„Okkar langlundargeð er í raun að þrotum komið. Við höfum ekki hitt oddvita verðandi stjórnarflokka síðan í febrúar og það gengur ekki að kalla stöðugt eftir samráði en gera svo ekkert með okkar tillögur,“ segir forseti ASÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert