Fréttaskýring: Sveitarstjórnarmenn vilja persónukjör

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi á Akureyri í fyrradag að ríkisstjórnin stefndi að því að taka upp persónukjör við sveitarstjórnarkosningarnar sem fram fara næsta vor. Málið verði unnið í samráði við alla þingflokka og Samband íslenskra sveitarfélaga og fljótlega verði kallaðir saman tengiliðir allra flokka og sambandsins.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að áætlanir ríkisstjórnarinnar falli að stefnumörkun sambandsins, sem staðfest var á síðasta landsþingi hinn 13. mars sl. Á landsþinginu skilaði lýðræðishópur sambandsins af sér tillögum. Meðal þeirra var tillaga um aukið lýðræði í sveitarfélögum, þ.ám. persónukjör.

Þessi tillaga fór svo inn í endurskoðaða stefnumörkun og aðgerðaáætlun stjórnar sambandsins 2009-2010. Þar var stjórn sambandsins m.a. falið að láta taka saman yfirlit um kosti og galla mismunandi leiða til að efla lýðræði og stuðla að beinni aðkomu og þátttöku íbúa við stjórn og ákvarðanatöku á vettvangi sveitarstjórna. Halldór segir að þótt útfærslan sé óútfærð liggi fyrir vilji sveitarfélaganna til að láta reyna á persónukjör.

Persónukjörið felst í því að flokkar sem bjóða fram leggja fram óraðaða lista en ekki raðaða eins og nú er gert. Bent hefur verið á þann galla við persónukjör að samherjar á listanum séu að berjast innbyrðis um að ná öruggum sætum á listanum á sama tíma og þeir eru að berjast við andstæðingana.

Halldór Halldórsson segist einmitt hafa velt þessu atriði talsvert fyrir sér. Persónukjör myndi væntanlega leiða til þess að prófkjör flokkanna legðust af en sá möguleiki væri fyrir hendi að „prófkjörsbaráttan“ færðist inn í kosningabaráttuna sjálfa. Í þessu sambandi hafi það verið rætt í hópi sveitarstjórnarmanna hvort gera eigi tilraun í nokkrum sveitarfélögum frekar en að byrja með persónukjör í öllum sveitarfélögum landsins á sama tíma.

Halldór bendir á að til standi að gera tilraun með rafrænar kosningar í sveitarstjórnarkosningum. Gefa eigi tilraunasveitarfélögum kost á að prófa þetta áður en farið verður að framkvæma rafrænar kosningar alls staðar. „Þó að flestir séu tölvuvanir og tæknin sé áreiðanlega til staðar eru þetta flókin og um leið viðkvæm mál þegar hvert atkvæði skiptir máli og ekkert má verða til þess að upp komi kerfisgallar sem geti spillt kosningum eða a.m.k. ímynd þeirra,“ segir Halldór.

Frumvarp um persónukjör til Alþingis náði ekki fram að ganga, m.a. vegna þess að 2/3 hluta atkvæða þurfti til að samþykkja það. Ásmundur Helgason, yfirlögfræðingur Alþingis, segir að ekkert sérákvæði sé í stjórnarskránni um að það þurfi aukinn meirihluta á Alþingi til að gera þess háttar breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna. Einfaldur meirihluti ráði því örlögum slíks frumvarps.

13% NÝTTU RÉTT SINN

Þótt lögin um persónukjör hafi ekki náð fram að ganga á síðasta þingi nýttu Íslendingar sér sem aldrei fyrr þann möguleika í nýliðnum kosningum að hafa áhrif á listana með útstrikunum og breytingum á röð frambjóðenda. Í tveimur tilvikum leiddu breytingarnar til þess að frambjóðandi féll niður um sæti en þó ekki út af þingi.

Strikað var 24 þúsund sinnum yfir nöfn frambjóðenda. Var það meira en tvöfalt fleiri útstrikanir en í kosningunum fyrir tveimur árum þegar strikað var 10.500 sinnum yfir nöfn í heildina. Útstrikanirnar samsvöruðu tæpum 13% af atkvæðafjöldanum en í kosningunum 2007 samsvöruðu útstrikanir tæpum 6% af gildum atkvæðum flokkanna á landinu öllu.

Í sveitarstjórnarkosningum á undanförnum árum hefur alltaf verið talsvert um útstrikanir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert