Vilja afnema verðtryggingu og leiðrétta lán

Þór Saari.
Þór Saari.

Þór Saari, þingmaður Borgarahreyfingarinnar, gagnrýndi á Alþingi í kvöld þau úrræði, sem stæðu landsmönnum til boða vegna efnahagsástandsins. Sagði hann að Borgarahreyfingin muni leita eftir samstarfi við aðra flokka um frumvarp sem m.a. gerði ráð fyrir afnámi verðtryggingar fjárskuldbindingar og leiðréttingu á lánum.

Þór sagði, að eitt úrræðið, greiðslujöfnun héti á mannamáli teygjulán með árangurslausum afborgunum, þar sem skuldugum fjölskyldum byðist að greiða af lánum fram á elliárin og nota til þess ellilífieyrinn.

Annað úrræði héti greiðsluaðlögun en þar fengi skuldug fjölskylda tilsjónarmann inn á heimilið sem fylgdist með heimilisbókhaldinu í nokkur ár og að loknum afskriftum skulda væri fjölskyldunni boðið að lenda á vanskilaskrá í nokkra áratugi. 

Svo væru hinar stórauknu vaxtabætur sem yrðu að meðaltali 25 þúsund krónur á hvert heimili á ári.

„Þetta er einfaldlega gagnslaust. Hér þarf róttæka skynsemi, sem viðurkennir það að vísitölur og gengishækkanir á íbúðalánum fólks eru óréttlátar og ósanngjarnar. Þessar hækkanir þarf að leiðrétta og færa aftur til ársbyrjunar 2008 en þá var stjórnvöldum ljóst hvert stefndi og áttu að láta almenning vita," sagði Þór. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert