Ræddu hugsanleg meirihlutaslit

Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi ásamt …
Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs og oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi ásamt Gunnari Birgissyni bæjarstjóra.

Hugsanleg samstarfsslit við Sjálfstæðisflokk var meðal þess sem rætt var um á fundi bæjarmálaráðs Framsóknarflokksins í Kópavogi nú í kvöld. Fundurinn var haldinn vegna upplýsinga um að viðskipti bæjarins við Frjálsa miðlun, fyrirtæki dóttur Gunnars Birgissonar bæjarstjóra, hafi numið um 50 milljónum króna á síðustu tíu árum.

„Menn fóru yfir þessi mál og fulltrúaráð mun funda þegar skýrsla frá endurskoðendum liggur fyrir," segir Ómar Stefánsson bæjarfulltrúi Framsóknarmanna. „Það voru mjög skiptar skoðanir um málið"

Ómar er inntur eftir því hvort vilji sé fyrir því að slíta samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn vegna málsins. „Það segir sig sjálft að þegar skoðanir eru skiptar þá er það meðal annars um það," svarar hann og staðfestir að það hafi komið til umræðu á fundinum. „Bæjarmálaráð er hins vegar ekki vettvangurinn til að taka ákvarðanir um það. Það er fulltrúaráðið sem samþykkir eða hafnar samstarfi milli flokka."

Hann segir að í kjölfarið muni hann hafa samband við endurskoðendur bæjarins, sem nú vinni að skýrslu um málið, og biðja þá um að hraða þeirri vinnu.

„Það var athyglisverður punktur sem kom þarna fram - af því menn köstuðu þarna upp siðferðislegum og lagalegum spurningum - að þetta væri mál sem Sjálfstæðismenn þyrftu líka að skoða hjá sér. Í umræðunni veltu menn því m.a. fyrir sér hvort ný forysta í Sjálfstæðisflokknum muni taka á þessu máli. Menn voru einfaldlega að ræða þetta á mjög breiðum grundvelli, bæði siðferðislegu spurningarnar en líka t.d. upphæðirnar sem um ræðir."

Ómar kveður það hafa komið sér á óvart hversu mikið umfang þessara viðskipta hafi verið. „Ég vissi ekki að það væru mikil önnur viðskipti en þau sem komið hafa fram í ársskýrslum bæjarins og í gegnum tilboð. Ég vissi ekki að þetta hefði staðið yfir svona langan tíma hjá öðrum deildum og sviðum bæjarins. Þetta eru ekki háar upphæðir á hverjum stað en viðskipti við þetta fyrirtæki eru á mörgum deildum og sviðum. Og þegar það er tekið saman þá fer maður að horfa á það með öðrum gleraugum."

Sem fyrr segir mun fulltrúaráð flokksins láta málið til sín taka eftir að skýrsla endurskoðendanna liggur fyrir. „Ég geri ráð fyrir að það sé hálfur mánuður þangað til – vonandi ekki lengra. Við vonum að þetta gangi fljótt og vel fyrir sig."

- Og þá verður ljóst hvaða afstöðu þið munið taka varðandi áframhaldandi samstarf við Sjálfstæðisflokkinn?

„Fulltrúaráðið mun ræða framhaldið," svarar Ómar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert