„Engan áhuga á að fara í stríð“

Frá fundinum í húsnæði ríkissáttasemjara í gær
Frá fundinum í húsnæði ríkissáttasemjara í gær mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveitarfélög glíma við mjög alvarlega fjárhagsstöðu og leita nú allra leiða út úr vandanum. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir ljóst að menn horfi fram á lengri kreppu en áður var talið. „Það þýðir að við þurfum að hugsa þjónustustigið upp á nýtt,“ segir Halldór. Ekki verði undan því vikist að draga eitthvað úr þjónustu til að lækka kostnað. Þessi mál sem önnur eru inni á sameiginlegu borði samtaka á vinnumarkaði og stjórnvalda í Karphúsinu.

Umdeild tillaga um 5% lækkun launakostnaðar gegn 10 launalausum frídögum hefur vakið hörð viðbrögð. Í gær lögðu forystumenn Kennarasambands Íslands fram yfirlýsingu við upphaf fundar í Karphúsinu. „Í ljósi tilrauna Sambands íslenskra sveitarfélaga til að fá Alþingi til að gera breytingar á grunnskólalögum í þeim tilgangi að skerða laun um 5% er sjálfgefið að KÍ getur ekki á sama tíma setið við sameiginlegt samningaborð með það að markmiði að leita sameiginlegra lausna,“ segir þar. Jafnframt boða kennarar að verði gerð breyting í þessa veru eftir að aðilar hafa náð saman við sameiginlegt borð telji KÍ sig óbundið af slíku samkomulagi.

Halldór segir umrædda 5%-tillögu eina af mörgum sem ræddar hafa verið og ekki verði í hana ráðist nema með samkomulagi. „Við höfum sett hana inn í umræðuna, höfum ekki einangrað hana við skóla, heldur erum að tala um allar stéttir sem starfa hjá sveitarfélögum. Þetta hefur bara verið á umræðustigi og stéttarfélögin hafa ekki tekið undir þetta. Ef það gerist ekki, þá er þetta auðvitað ekki fær leið.“ Líti stéttarfélögin svo á að 5% leiðin komi ekki til greina þá sé þýðingarlaust að ræða hana frekar. „Þetta eru bara hugmyndir og við höfum engan áhuga á að fara í stríð við einn eða neinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert