11,5 milljarða halli en ekki 4,2 milljarða

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. www.mats.is

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði gagnrýna harðlega Lúðvík Geirsson bæjarstjóra Hafnarfjarðar, sem sendi í gær helstu niðurstöður ársreiknings bæjarins á fjölmiðla, áður en þeir höfðu verið undirritaðir af löggiltum endurskoðendum og skoðunarmönnum bæjarins og teknir til fyrstu umræðu í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.

Segja þeir að þar hafi verið dregin upp skökk mynd af rekstri bæjarsjóðs  „Tap á rekstri bæjarins á árinu 2008 nam ekki 4,2 milljörðum, heldur nærri 11,5 milljörðum króna. Bókaður er hagnaður upp á 6,1 milljarð króna vegna sölu bæjarins á eignarhlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja til Orkuveitu Reykjavíkur og jafnframt 1,3 milljarðar króna í dráttarvexti af söluandvirðinu.“

Óljóst sé á þessari stundu hvort salan gangi eftir vegna þeirrar lagalegu óvissu sem um hana ríki, því Orkuveita Reykjavíkur hafi enn frest til að áfrýja dómi Héraðsdóms til  Hæstaréttar. Fari svo að Hæstiréttur dæmi Hafnarfjarðarbæ í vil eða að jákvæður  dómur Héraðsdóms standi, sé óvíst hvort Orkuveita Reykjavíkur hafi fjárhagslega burði til að efna kaupsamninginn. 

„Ljóst er á reikningum Hafnarfjarðarbæjar að núverandi meirihluti Samfylkingarinnar hefur verið ófær um að forgangsraða í rekstri og haldið uppi fölsku þjónustustigi, sem meðal annars birtist í dýrum framkvæmdum bæjarins síðustu ára sem fjármagnaðar voru með lánum í erlendum gjaldmiðlum. Það er þungbær staðreynd að að nú sé staða bæjarsjóðs eins slæm og raun ber vitni og bærinn því afar illa í stakk búinn til að takast á við þann vanda sem framundan er.

Meirihluti Samfylkingarinnar hefur staðið í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu í bænum með afstöðuleysi sínu til samnings um stækkun álversins í Straumsvík, sem hann sjálfur gerði, en þess í stað hefur bæjarstjórinn hreykt sér í fjölmiðlum af erlendum lántökum. Afleiðingar þeirrar stefnu má sjá í núverandi uppgjöri, en skuldir bæjarins fóru á árinu 2008 úr 21,6 milljörðum króna í 37 milljarða króna. Ljóst er að hærra hlutfall útsvars Hafnfirðinga mun hér eftir fara í greiðslu fjármagnskostnaðar í stað þjónustu við bæjarbúa,“ segir í fréttatilkynningu frá bæjarfulltrúunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert