Veitt eftirför á ofsahraða

Þegar lögreglumenn ætluðu að stöðva grunsamlegan ökumann um klukkan hálf sex í morgun sinnti hann ekki stöðvunarmerkjum og ók á ofsahraða suður Hafnarfjarðarveg frá Kópavogsgjá, að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Þegar ökumaðurinn kom að Arnarnesbrú ók hann sem leið lá upp á brúna og gegn rauðu ljósi beint áfram og aftur inn á Hafnarfjarðarveg. Áfram hélt hann á ofsahraða suður Hafnafjarðarveg yfir gatnamótin við Vífilstaðarveg og áfram áleiðis til Hafnarfjarðar.

Í Engidal beið lögreglubíll við Álftanesveg. Ökumaðurinn sveigði þá yfir á öfugan vegahelming og ók á móti umferð Reykjavíkurveg frá Engidal inn í Hafnarfjörð. Skapaðist þá veruleg hætta fyrir aðra umferð þar sem bílnum var ekið móti umferð að Flatarhrauni ítrekað gegn rauðu ljósi. Töldu lögreglumenn i eftirförinni að þá hafi hraðinn verið um 140-150 km/klst en leyfilegur hámarkshraði er 50 km.

Ökumaðurinn endaði svo för sína með því að aka þvert yfir hringtorgið við Arnarhraun og skemmdist bíllinn það mikið að hann komst ekki lengra fyrir eigin vélarafli. Tók þá ökumaðurinn á rás á tveimur jafnfljótum en var hlaupinn uppi af fótfráum lögreglumönnum og handtekinn. Hann var í annarlegu ástandi og gistir nú fangageymslur lögreglu.

Í bílnum fannst talsvert af ætluðu þýfi og í ljós kom einnig, að bílnum hafði verið stolið. Þrír lögreglubílar tóku þátt í eftirförinni, sem stóð yfir í um fjórar mínútur frá því að hún hófst við Kópavogsgjá og þar til henni lauk við Arnarhraun. Ökuhraði bílsins, sem lögreglan veitti eftirför, er talinn hafa ekið 140-160 km á klukkustund mest alla leiðina.

    mbl.is

    Bloggað um fréttina

    Fleira áhugavert
    Fleira áhugavert