50 milljarða skuldbindingar vegna leigu

Íþróttamannvirki eru meðal þess sem mörg sveitarfélög eiga ekki sjálf …
Íþróttamannvirki eru meðal þess sem mörg sveitarfélög eiga ekki sjálf heldur leigja af einkaaðilum. Myndin tengist efni fréttarinnar aðeins óbeint. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Fjárlaganefnd Alþingis mun kalla eftir upplýsingum um það í næstu viku, hversu mikil útgjöld ríkisins eru vegna fasteignaleigusamninga við einkarekin fasteignafélög. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins.

Sagði Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, að hann hefði alltaf haft efasemdir um samninga af þessu tagi, en oft væri verið að skuldbinda sig til ára eða áratuga með samningum sem þessum. Kvað hann að í þessu fælist nokkurs konar „bókhaldsfiff.“

Kom fram að árið 2007 hefðu sveitarfélög á landinu greitt allt að 40 milljarða króna í leigu á húsnæði af fyrirtækjum sem þessum, en það hafi verið orðið algengt fyrirkomulag í góðæri undanfarinna ára. Samningar sem þessir hafi almennt verið annað hvort verðtryggðir eða bundnir við gengi erlendra gjaldmiðla.

Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga eru heildarskuldbindingar íslenskra sveitarfélaga vegna fasteiginaleigusamninga af þessu tagi nálægt 50 milljörðum króna nú, en ekki sú upphæð sem greiða á út vegna þeirra á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert