Viðræðum haldið áfram

Guðmundur Gunnarsson, Vilhjálmur Egilsson og Kristján Gunnarsson í húsi ríkissáttasemjara …
Guðmundur Gunnarsson, Vilhjálmur Egilsson og Kristján Gunnarsson í húsi ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Eggert

Ákveðið var á fundi helstu hreyfinga launamanna með Samtökum atvinnulífsins í morgun, að halda áfram viðræðum framlengingu kjarasamninga og gerð stöðugleikasáttmála.

Að sögn Alþýðusambands Íslands hafa Samtök atvinnulífsins lagt mikla áherslu á lækkun stýrivaxta og segja það forsendu endurreisnar atvinnulífs í landinu.  Eftir litla lækkun stýrivaxta Seðlabankans í gær hafi jafnvel búist við því að atvinnurekendur segðu  sig frá samningaborðinu en það gerðist ekki. 

Þess í stað hafi ASÍ og önnur samtök launafólks, ásamt SA, ákveðið að gera tilraun til að þroska áfram aðgerðaráætlun í samstarfi við ríkisstjórn sem gæti leitt til þess að Seðlabankinn lækkaði vexti enn frekar. Fram hafi komið á fundinum í morgun, að glíman við ríkisfjármálin væri verkefni af þeirri stærðargráðu að það ynnist ekki án aðkomu aðilavinnumarkaðarins. Sú staða setji mikla ábyrgð á hendur þessum aðilum.

Helgin mjög mikilvæg

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir er ánægður með að haldið verði áfram með viðræður en þó sé mikið verk óunnið. Héðan í frá og fram á þriðjudag verði „massífir“ fundir og hafi menn ekki daginn verður unnið á nóttunni.

„Markmiðið er annars vegar að setjast niður með ríkisstjórninni og fara í gegnum áform um ríkisfjármálin fyrir þetta og næstu ár. Hins vegar viljum við á vinnumarkaðnum fá aðgerðaráætlun, handfasta og tímasetta. Vonandi náum við að klára hana um helgina, í samstarfi við ríkisstjórnina.“ Gylfi vonast til að fá Seðlabankann í samstarfið og treystir því að hægt verði að búa þær aðstæður fyrir lok mánaðarins að hægt verði að verja krónuna á mun lægra vaxtastigi en nú er. „En það þarf að taka þær ákvarðanir sem þarf til að það sé hægt.“

Gylfi segir helgina mjög mikilvæga í þessari áætlun. Mikilvægt sé að aðgerðaráætlun liggi fyrir á þriðjudag, en einnig að það náist samkomulag við ríkisstjórnina og Seðlabankann og hugsanlega Alþjóða gjaldeyrissjóðinn sem dugi til þess að hægt verði að taka nauðsynlegar ákvarðanir. „Og ég vil taka undir með forsætisráðherra, að það sé mjög mikilvægt að að tekin verði ný ákvörðun um vaxtastig fyrir mánaðarmót. Við búum við mjög erfiða dagsetningu sem er 30. júní og hún ræður miklu um framtíð efnahagsmála á Íslandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert