Öllu skal fórnað fyrir ESB-aðild

Frá Hrafnseyri.
Frá Hrafnseyri.

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi alþingismaður, gagnrýndi íslensk stjórnvöld harðlega í þjóðhátíðarræðu á Hrafnseyri við Arnarfjörð í dag, fyrir að stefna, bæði leynt og ljóst, inn í ríki Evrópusambandsins. 

„Öllu skal fórnað til að ná því markmiði. Það er gert þegar verst stendur á fyrir okkur. Vilji stjórnvalda virðist standa til þess að draga niður þjóðfána okkar, sem er tákn okkar sem sjálfstæðrar þjóðar, og draga þess í stað að húni fána Evrópusambandsins. Sá fáni mun yfirgnæfa allt hér og skapa óróleika og klofning meðal þjóðarinnar ef fram fer sem horfir.  Gegn því verðum við að berjast og tryggja  hagsmuni okkar, ekki síst þeirra sem lifa af því sem landið gefur, í sjávarbyggðum og sveitum landsins,“ sagði Sturla m.a. í ræðu sinni.

Hann sagði, að íslenskir stjórnmálamenn hlytu að horfa til arfleifðar þjóðfrelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar,  sem fæddist á Hrafnseyri, þegar þeir meta langtíma hagsmuni lands og lýðs í samskiptum þjóðanna.

„Eðlilegt er að varpa fram þeirri spurningu hvort það sé í anda hugsjóna Jóns Sigurðssonar að afsala hluta fullveldis okkar og flytja valdið yfir auðlindum sjávar til sameiginlegs og yfirþjóðlegs valds Evrópusambandsins? Hafa stjórnendur Evrópusambandsins forsendur til að meta aðstæður okkar Íslendinga sem búum við ysta haf og nýtum auðlindir eldvirkninnar, framrása jökulfljótanna til orkuvinnslu og iðnaðar? ... Mun Alþingi, sem var stofnað á Þingvöllum árið 930 og hefur verið  stolt okkar Íslendinga, njóta sæmdar og hafa þau áhrif sem því ber ef Ísland verður afkimi innan Evrópusambandsins?

Er reynsla okkar svo góð af samskiptum við Evrópuríkin eftir hrunið? Ég minnist þess þegar við vorum beitt hryðjuverkalögum með hljóðlátu samþykki jafnt Norðurlandanna sem Evrópusambandsríkjanna tuttugu og sjö? Eigum við skilyrðislaust að falla að fótum þeirra eftir það sem á undan er gengið? Þetta eru spurningar sem við Íslendingar verðum að svara," sagði Sturla.

Ræða Sturlu Böðvarssonar

Sturla Böðvarsson.
Sturla Böðvarsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert