Kapphlaup um makríl skilar lægra verði

mbl.is/Helgi Bjarnason

Veiðar á makríl snemmsumars skila mun minni verðmætum til þjóðarbúsins en ef væri hann veiddur í íslenskri lögsögu í júlí og ágúst. Þetta segja fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun og framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar.

Hátt í tuttugu skip keppast nú við makrílveiðar suðaustur af landinu. Þar gildir lögmálið fyrstur kemur, fyrstur fær, því í ár var aðeins sett þak á heildarafla, 112 þúsund tonn, en ekki gefinn út kvóti á hvert skip. Makríll sem hér er veiddur í júní er jafnan smærri og horaðri en í júlí og ágúst, þegar fiskurinn er orðinn feitari. Hann er sjaldnar hægt að nota til manneldis og er ekki eins góður í bræðslu vegna minna fitumagns. Talsvert hærra verð fæst fyrir makríl til manneldis en til bræðslu.

Þrátt fyrir þetta veiða íslensk skip makríl í stórum stíl um þessar mundir enda horfa margir til kvótasetningar á næstu árum. Fiskifræðingur sem rætt var við sagði aðfarirnar líklega skýrast af væntingum útgerðarmanna um að horft verði til veiðisögu við kvótaúthlutanir. Í ár er aðeins fjórða árið sem makríll er að einhverju marki í íslenskri lögsögu. Því er ekki víst að nægileg veiðisaga yrði fyrir hendi til að byggja kvótaúthlutun á, að sögn Sigurgeirs Þorgeirssonar ráðuneytisstjóra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert