Sigla á gúmmíbátum til Færeyja

Hilmar og áhöfnin á bátnum hans.
Hilmar og áhöfnin á bátnum hans. mynd/eyjafrettir.is

Fimm gúmmíbátar lögðu í nótt af stað frá Vestmannaeyjum áleiðis til Hornafjarðar og þaðan verður svo siglt til Færeyja. Einn báturinn varð þó frá að hverfa á leiðinni austur í nótt en hinir fjórir halda áfram.  

Hilmar Kristjánsson, einn þeirra sem tekur þátt í ferðalaginu, sagði við vefinn eyjafrettir.is að siglingin í nótt hefði gengið eins og í sögu. „Við fengum algjöra renniblíðu alla leið austur.  Það var reyndar aðeins smá kaldi á leiðinni upp að Landeyjasandi en eftir það var þetta bara rennisléttur sjór og blíða.  Það sneri ein tuðra við eftir um klukkutíma siglingu en báturinn var einfaldlega of lítill til að leggja til atlögu við opið úthafið.  Við erum því fjórir bátar eftir, tuttugu karlar og ein kona,“ sagði Hilmar.

Hilmar segir að siglingin til Hafnar hafi tekið um 10 klukkutíma en bátarnir komu þangað um tíuleytið í morgun.

„Núna erum við bara að fylla á bensínið og stefnum á að leggja af stað til Færeyja í nótt ef spáin gengur eftir,“ sagði Hilmar.

Eyjafrettir.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert