Skref til baka í réttindum aldraðra og öryrkja

Skerðing verður á réttindum í almannatryggingakerfinu.
Skerðing verður á réttindum í almannatryggingakerfinu.

Frumvarp, sem Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, mun mæla fyrir á Alþingi í dag um ráðstafanir í ríkisfjármálum, gerir ráð fyrir talsverðri skerðingu á almannatryggingum.

Segir í frumvarpinu, að miklar réttarbætur hafi náðst á árinu 2008 til handa öldruðum og öryrkjum í formi afnáms makatenginga, hækkunar bóta, hækkaðs frítekjumarks vegna atvinnutekna, sérstaks frítekjumarks á lífeyrissjóðstekjur öryrkja, sérstaks frítekjumarks á fjármagnstekjur og lækkunar skerðingarhlutfalls ellilífeyrisþega.

„Óhjákvæmilegt er að stíga skref til baka við núverandi aðstæður. Lögð er áhersla á að litið sé svo á að um tímabundnar ráðstafanir sé að ræða sem taki mið af því efnahagsástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu. Jafnframt er mikilvægt að áfram verði unnið að endurskoðun almannatryggingakerfisins í því skyni að gera það einfaldara og gagnsærra en þó fyrst og fremst með bættan hag aldraðra og öryrkja í huga," segir í frumvarpinu.

Meðal annars er lagt til að aldurstengd örorkuuppbót skerðist vegna tekna lífeyrisþega. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að frítekjumark ellilífeyrisþega vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar verði lækkað úr 1.315.200 kr. á ári í 480.000 kr. á ári eða 40.000 kr. á mánuði. Segir í frumvarpinu, að þetta sé gert vegna þess mikla atvinnuleysis sem þjóðin stendur frammi fyrir en gríðarlegur fjöldi atvinnufærra manna og kvenna þurfi að lifa af atvinnuleysisbótum einum saman.  Ekki er gert ráð fyrir að frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna  skerðist.

Þá er gert ráð fyrir að  lífeyrissjóðstekjur muni hafa áhrif á útreikning elli- og örorkulífeyris en samkvæmt núgildandi lögum teljast þær tekjur ekki til tekna við útreikning grunnlífeyris.

„Í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin í ríkisfjármálum verður að teljast nauðsynlegt að láta þessar tekjur teljast til tekna við útreikning bótanna, en frítekjumark vegna grunnlífeyris er nú tæplega 215.000 kr. á mánuði þannig að grunnlífeyrir mun eftir sem áður ekki byrja að skerðast fyrr en því tekjumarki er náð og falla niður við um 332.000 kr. á mánuði," segir í frumvarpinu.

Áhrif aðgerðanna

Frumvarpið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert