Stúdentar ósáttir við Strætó

mbl.is/Ómar

Stúdentaráð Háskóla Íslands harmar þau áform stjórnar Strætó bs. að hafa ekki áfram ókeypis í vagnana fyrir námsmenn næsta vetur. Stjórn ráðsins kallar raunar eftir því að ákvörðunin verði endurskoðuð. 

Stúdentaráð hefur sent frá sér eftirfarandi ályktun:

„Stúdentaráð Háskóla Íslands harmar þau áform stjórnar Strætó bs að leggja af verkefnið „frítt í strætó fyrir námsmenn“ næsta skólaár. Bæði borgarstjórn Reykjavíkurborgar og nýkjörin ríkistjórn hafa talað um stóraukna áherslu á almenningssamgöngur og eru þessi tíðindi því talsvert á skjön við opinbera stefnu yfirvalda. Það er ljóst að með aukinni notkun almenningssamgangna meðal námsmanna má minnka notkun einkabíla í borginni, stuðla að umhverfisvænni höfuðborg og spara einnig töluvert fjármagnfyrir hið opinbera sem nemur gatnaviðgerðum, umferðarmannvirkjum og öðru viðhaldi.

Niðurskurðarhnífur yfirvalda hefur gengið ansi nærri stúdentum á undanförnum misserum. Á sama tíma og verðlag í landinu fer hækkandi fjara kjör námsmanna versnandi. Með nýsamþykktum úthlutunarreglum LÍN hafa stjórnvöld ákveðið að halda námsmönnum undir fátækramörkum. Nú hyggjast stjórnvöld einnig afturkalla verkefnið „frítt í strætó fyrir námsmenn“. Það má því segja að stjórnvöld séu með aðgerðum sínum að gera nám að forréttindum hinna ríku og efnameiri. Stúdentaráð Háskóla Íslands kallar eftir því að stjórn Strætó bs. í samvinnu við stjórnvöld endurskoði ákvörðun sína og bjóði námsmönnum áfram frítt í strætó næsta skólaár.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert