Braut gegn þroskaskertum pilti

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann á sextugsaldri, Jón Sverri Bragason, í fjögurra ára fangelsi fyrir gróf kynferðisbrot gegn þroskaskertum ungum pilti. Hann var einnig dæmdur til að greiða piltinum 1,5 milljón króna í miskabætur. Brotin áttu sér stað þegar pilturinn var þrettán til fimmtán ára.

Jón Sverrir sem er með lögheimili í Sameinuðu arabísku furstadæmunum hafði í mörg skipti munnmök við piltinn og fékk hann fjórum eða fimm sinnum til að hafa við sig endaþarmsmök. Sannað þótti að hann hafi tælt piltinn til kynmakanna með því að notfæra sér þroskaskerðingu hans og tölvufíkn. Oftast greiddi hann fyrir kynmökin með tölvuleikjum eða peningum.

Málið komst upp þegar móðir piltsins var vör við að hann fór óvænt að heiman frá sér eftir kvöldmat og sagðist ætla í gönguferð. Henni þótti grunsamlegt að hann færi í slíkar gönguferðir og fékk á tilfinninguna að ekki væri allt með felldu. Hún fékk grun sinn staðfestan þegar hún skoðaði tölvu piltsins. Þar voru vistuð samskipti hans við Jón Sverri, sem kallaði sig Nonna, þar sem þeir mæltu sér mót. Kom fram í samskiptum þeirra, að pilturinn fengi fimm þúsund krónur ef hann hefði endaþarmsmök við Nonna.

Jón Sverrir kannaðist við að hafa ætlað að hitta piltinn og einnig að þeir hefðu áður hist. Hann sagði hins vegar ekkert kynferðislegt hafa átt sér stað þeirra í milli. Hafi þeir setið saman í nokkrar mínútur, keyrt stutta stund og að lokum fékk pilturinn tölvuleik sem Jón Sverrir keypti á ferðum sínum erlendis.

Fjölskipaður héraðsdómur taldi hafið yfir skynsamlegan vafa, s.s. með tilliti til samskipta mannsins og piltsins í gegnum samskiptaforrit, að Jón Sverrir hafi brotið kynferðislega gegn piltinum. Brot hans hafi verið alvarleg og beinst að ungum, þroskaskertum pilt með áráttukennda hegðun. Jón Sverrir var einnig talinn hafa sýnt styrkan og einbeittan brotavilja við framkvæmd brotanna.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert