Langt í land í stöðugleikaviðræðum

Fulltrúar launþegasamtaka koma til fundar í Stjórnarráðinu.
Fulltrúar launþegasamtaka koma til fundar í Stjórnarráðinu.

Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, segir að enn sé langt í land í viðræðum um stöðugleikasáttmála. Hann sagði í fréttum Ríkisútvarpsins að allt sé ennþá í óvissu  og mjög ólíklegt sé það sé verið að landa þessu á næstunni. 

Eiríkur sagði, að mjög margir þættir þurfi að skýrast og gersamlega útilokað sé að skrifa einhverja víxla á framtíðina sem feli það í sér að menn séu skuldbundnir að ganga í blóðugan niðurskurð á velferðakerfinu á næstu árum.

Niðurstaða um framlengingu á kjarasamningum á milli Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins til ársins 2010 er nánast í höfn. Hins vegar segja aðilar vinnumarkaðarins að niðurstaða verði að fást í ríkisfjármálin áður en gengið verði frá endanlegu samkomulagi.

Fram kom í Morgunblaðinu í dag, að fulltrúar ASÍ og SA séu nokkuð sáttir við áformin í ríkisfjármálum fyrir þetta ár og árið 2010. Hins vegar séu mikil vonbrigði hjá fulltrúum beggja með áform stjórnvalda fyrir árin 2011 til 2013. Telji  fulltrúar atvinnurekenda,  að ríkisstjórnin stefni að svo stófelldum skattahækkunum, m.a. á atvinnulífið, að það muni ekki rísa undir slíkum álögum. Ríkisstjórnin ætli hins vegar að ganga alltof skammt í niðurskurði á ríkisútgjöldum, en allt of langt í aukinni skattheimtu.

Fulltrúar ASÍ munu einnig gagnrýnir á áform ríkisstjórnarinnar um aukna skattheimtu, en áhyggjur þeirra beinast ekki síður að því hvar stjórnvöld hyggist skerða þjónustu, og hvers konar tilfærslur verði ákveðnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert