Mega veiða sjö fiska

Þorskur
Þorskur

Frístundaveiðar eru vaxandi þáttur í ferðaþjónustunni og nú hefur Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra undirritað reglugerð um slíkar veiðar. Eru þær ýmsum takmörkunum háðar ef viðkomandi ferðaþjónustufyrirtæki kaupir ekki sérstakan kvóta til veiðanna.

Dæmi um slíkt er m.a. að finna á Vestfjörðum en þangað hafa útlendingar sótt í stórum stíl í sjóstangaveiði. Fyrirtækin þar hafa keypt kvóta til veiðanna.

Aðilum sem reka ferðaþjónustu og hyggjast nýta við þann rekstur báta til frístundaveiða er skylt að sækja um leyfi til Fiskistofu fyrir hvern bát sem fyrirhugað er að nota í því skyni. Skilyrði útgáfu leyfis er að sá sem rekur bátinn hafi leyfi Ferðamálastofu.

Samkvæmt reglugerðinni eru frístundaveiðar án kvóta einungis heimilar með sjóstöng og handfærum án sjálfvirknibúnaðar. Leyft er að veiða 7 fiska af kvótabundnum fisktegundum á hvert handfæri eða sjóstöng dag hvern og reiknast sá afli ekki til aflamarks viðkomandi báts. Ekki er heimilt að hafa um borð í báti fleiri en 7 sjóstangir og/eða færarúllur samtímis. Þetta þýðir að mest er hægt að veiða 49 fiska í hverri veiðiferð.

Sé frístundaveiði stunduð á báti með kvóta skal leyfið takmarkast af aflamarki eða krókaaflamarki viðkomandi báts.

Allur afli þessara báta skal veginn í samræmi við gildandi reglur um vigtun og skráningu sjávarafla. Heimilt er að selja og fénýta á annan hátt þann afla sem fæst við þessar veiðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert