„Erum að moka þennan framsóknarflór“

Jóhanna Sigurðardóttir er hún flutti stefnuræðu sína á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir er hún flutti stefnuræðu sína á Alþingi. mbl.is/Ómar

„Framsóknarflokkurinn dregur aldrei neitt undan við að mála þá mynd eins dökka og nokkur kostur er. Það er þeirra siður og hefð,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokks, um stöðu Landsvirkjunar.

Vigdís spurði hvort eignir Landsvirkjunar standi undir skuldum stofnunarinnar, en ljóst er að staða hennar er slæm. Jóhanna benti Vigdísi á að skoða sögu Framsóknarflokksins. Það hafi verið hann sem kom þessu ástandi á. „Og við erum að moka þennan framsóknarflór sem skilinn var eftir.“

Jóhanna sagði að gripið hefði verið til aðgerða vegna Landsvirkjunnar sem hún telur að duga eigi til. Komi annað í ljós sé það breytt staða sem verði að taka á.

Vigdís taldi sig ekki hafa fengið svör við spurningum sínum og kvað sér síðar hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta. Fór hún fram á að forseti Alþingis hlutaðist til um það að ráðherrar svari spurningum sem fyrir þá eru lagðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert