Enginn ungi í arnarhreiðrinu

Arnarhreiður á einni af hinum mörgu eyjum í Breiðafirði.
Arnarhreiður á einni af hinum mörgu eyjum í Breiðafirði. Brynjar Gauti

Ljóst er nú að útungunin í arnarhreiðrinu sem þjóðin hefur fylgst svo náið með í gegnum vefmyndavél hefur misfarist. Samkvæmt fréttavef Reykhólahrepps verða eggin tvö sem assan lá á í hreiðrinu fjarlægð við tækifæri og þau rannsökuð. 

Þar kemur líka fram að Kristinn Haukur Skarphéðinsson, sérfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, hefur tekið út öll arnarhreiður sem vitað er um á landinu og eru að hans sögn ungar í alls 26 hreiðrum en að vísu mjög smáir í sumum tilfellum þannig að brugðið getur til beggja vona með árangur arnarvarpsins í ár. 

Margir höfðu talið sig sjá unga í hreiðrinu sem vefmyndavélin fylgdist með en ljóst er að það hefur verið óskhyggja. Á vef Reykhólahrepps kemur fram að rúmur mánuður sé nú liðinn frá því að ungarnir hefðu átt að skríða úr eggjunum en enn stóðu vonir til að úr því rættist þar sem alvanalegt sé að örninn liggi vikum saman fram yfir eðlilegan tíma. Því miður er algengt að útungun misfarist hjá erninum og verður það á engan hátt rakið til nærveru myndavélarinnar í þessu tilfelli. 

Nú er í athugun að færa myndavélina og setja hana upp við hreiður þar sem ungar hafa klakist úr eggjum að sögn Reykhóla, en Breiðafjörðurinn og sveitirnar þar í kring eru helsta bú- og varpsvæði íslenska arnarstofnsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert