Vilja hagspá heimilanna

Frá Hafnarfirði
Frá Hafnarfirði mbl.is/Rax

Hagsmunasamtök heimilanna hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau lýsa yfir miklum áhyggjum af sífellt versnandi stöðu íslenskra heimila. Segir þar að ríkisstjórnin hafi ákveðið að þyngja enn róður heimilanna með aukinni skattbyrði og skerðingu ráðstöfunartekja um að jafnaði 90.000 krónur á mánuði. 

Er þess krafist að ríkisstjórnin láti útbúa hagspá  heimilanna, sem nái yfir sama tímabil og endurreisn ríkissjóðs, þ.e. frá og með 2009 til 2013. 

Ályktunin fylgir í heild hér á eftir:

„Hagsmunasamtök heimilanna lýsa yfir miklum áhyggjum af sífellt versnandi stöðu íslenskra heimila. 

Samkvæmt greiningu samtakanna á tölum Seðlabanka Íslands var greiðslubyrði 18% heimila þung og 36% heimila mjög þung.  Er það þrátt fyrir að stór hluti heimila hafi nýtt sér ýmis úrræði, svo sem frystingar og skilmálabreytingar lána, til að lækka a.m.k. tímabundið mánaðarlegar greiðslur fastra lána. 

Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið að bæta um betur.  Áætlað er að nýsamþykktar ráðstafanir í ríkisfjármálum, svo kallaður bandormur, þyngi skattbyrði heimilanna eða skerði á annan hátt ráðstöfunartekjur þeirra um að jafnaði 90.000 krónur á mánuði.  Hvernig heimilin eiga að standa undir slíkum álögum ofan á allt annað, er samtökunum hulin ráðgáta. 

Samkvæmt útreikningum stjórnarmanns í Hagsmunasamtökum heimilanna, er byggja á hagtölum frá opinberum aðilum, duga núverandi ráðstöfunartekjur ekki fyrir útgjöldum íslensku vísitölufjölskyld­unnar.  Hún er nú rekin með tveggja milljóna króna halla á ársgrundvelli og því deginum ljósara að meiri álögur stefna enn fleirum í vanda.

Einnig sýnir könnun, sem framkvæmd var meðal félagsmanna í samtökunum, að afgerandi meirihluti, eða 61% félagsmanna er ekki að ná endum saman með tekjum sínum, er annað hvort gjaldþrota eða á leið þangað, safnar skuldum eða að ganga á sparifé sitt.  Jafnframt kemur fram að hlutfallslega fleiri, eða 85% þeirra sem eru með gengistryggð lán eru ekki að ná endum saman. 

Ætla má að þessi staða endurspegli þokkalega stöðuna í samfélaginu. Einnig kemur fram í könnuninni að 44% félagsmanna telja frekar eða mjög litlar líkur á því að þeir geti staðið við skuldbindingar sínar næstu sex mánuði.

Í ljósi þessara niðurstaðna varðandi stöðu heimilanna krefjast Hagsmunasamtök heimilanna þess að ríkisstjórnin láti útbúa hagspá  heimilanna, sem nái yfir sama tímabil og endurreisn ríkissjóðs, þ.e. frá og með 2009 til 2013.  Slík hagspá er nauðsynleg til að sjá hver fjárhagsstaða heimilanna er og hvernig hún mun þróast á næstu árum.  Samtökin vilja líka sjá til hvaða ráðstafana ríkisstjórnin hyggst grípa til að endurreisa fjárhag heimilanna.  Núverandi skuldastaða þeirra er augljóslega ógnvænleg og bendir ekkert til þess að það batni á komandi árum nema gripið sé til róttækra aðgerða.

Það er til lítils, að mati samtakanna, að rétta við fjárhag ríkissjóðs og fjármálafyrirtækja, ef það er á kostnað heimila, atvinnulífs og sveitarfélaga.  Endurreisn allra þessara grunnstoða samfélagsins verður að haldast í hendur.

Stjórn Hagsmunasamtök heimilanna, Reykjavík 4. júlí  2009"

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert