Fréttaskýring: „Einhver barnaskapur sem nær bara engri átt“

Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri mbl.is/Ómar Óskarsson

Orð Davíðs Oddssonar um stöðu Icesave-málsins hafa vakið mikla athygli. Davíð setti þar fram ákveðna harðlínuafstöðu og vill að málið fari fyrir íslenska dómstóla. Þá vísaði hann til óbirtra gagna í málinu.

„Þeir sem setja sig inn í málið af alvöru sjá það að þetta er einhver barnaskapur sem nær bara engri átt,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, spurður álits á þeirri afstöðu sem Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, setti fram í Icesave-málinu um helgina.

Davíð sagði í viðtali í Morgunblaðinu að ríkisábyrgð væri ekki fyrir hendi á innstæðunum og að þeir sem vildu rukka Íslendinga ættu að höfða mál á varnarþingi íslenska ríkisins, fyrir íslenskum dómstólum. Hann vilji að Íslendingar standi við sínar skuldbindingar, en fái líka skorið úr um hverjar þær séu í raun.

„Vandinn er sá að við innleiddum í lög þessa tilskipun [innsk. blm. um innstæðutryggingar] og innlánstryggingasjóðurinn staðfesti greiðsluskyldu sína strax í október. Málið er ekki þannig vaxið að þetta sé vandi úti í löndum sem komi okkur ekki við. Menn vita hvernig málin stóðu í haust og hverju var hótað í sambandi við það ef við ætluðum að hlaupast undan okkar ábyrgð. Ég held að Davíð Oddsson geti ekki frekar en aðrir skautað framhjá þeim staðreyndum að það hefði alvarlegar og víðtækar afleiðingar,“ segir Steingrímur. Stjórnvöld hafi gengist við ábyrgð sinni strax í haust og lofað að semja um uppgjör á næstunni. „Einn af þeim sem lofuðu því var Davíð Oddsson.“

 Nú vilja allir semja - nema Davíð

Davíð snúi málinu öllu á haus og búi sér til nýjan heim fyrir utan raunheiminn. Stjórnarandstaðan á þingi, In defence-hópurinn og nánast allir nema Davíð Oddsson tali nú þannig að það þurfi að semja, þótt margir vilji fá betri samning. „Ég held að Davíð Oddsson sé einn á ferð ef hann er virkilega með þá skoðun að við eigum ekki að bera neina ábyrgð í þessu.“

Steingrímur segir athyglisvert í sjálfu sér að þegar Davíð Oddsson bjóði fram aðstoð sína við þessar erfiðu aðstæður, sem sé skiljanlegt því hann beri mikla ábyrgð sjálfur, þá velji hann til þess sérkennilegar aðferðir. „Mér sýnist þetta vera hjálpsemi af svipuðum toga og hann sýndi af sér á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í vetur.“

Litlar skýringar var að fá hjá embættismönnum í gær, þegar leitað var eftir aðgangi að skjölum sem Davíð Oddsson vísaði til. Enginn aðspurður kannaðist við þau, hvorki í utanríkis- né forsætisráðuneyti, né í Seðlabanka Íslands. Er því komin upp keimlík staða og eftir ræðu Davíðs hjá Viðskiptaráði í haust, þegar hann kvaðst vita hvers vegna hryðjuverkalögunum var beitt.

Vísaði til vandfundinna skjala

Davíð sagði til dæmis að skjöl sýndu að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins teldu misbeitingu Breta, Hollendinga og Þjóðverja innan sjóðsins, til þess að tengja saman aðstoð hans við Íslendinga og kröfur sínar umfram lagaskyldur, einhverja mestu niðurlægingu sem sjóðurinn hefði orðið fyrir. Þegar spurst var fyrir hjá fyrrnefndum stofnunum í gær kannaðist enginn við þessi skjöl, en í utanríkisráðuneytinu fengust þau svör að það sem varðaði AGS væri helst að finna í forsætisráðuneyti. Fastafulltrúi AGS, Franek Rozwadowski, tjáði sig ekki um málið í gær.

Þá sagði Davíð óbirt gögn sýna að Englandsbanki teldi ekki að Íslendingar ættu að greiða fyrir Icesave. Englandsbanki gerði sér grein fyrir því að engin ríkisábyrgð væri á því. Aðspurðir könnuðust ekki heldur við þessi gögn, en vísuðu á Seðlabanka Íslands. Stefán Jóhann Stefánsson hjá Seðlabankanum svaraði því til að hann þekkti ekki til gagnanna en gerð yrði að þeim leit.

Líklega skýrsla franska seðlabankans frá 2000, en ekki OECD

Davíð vísaði til skýrslu um innistæðutryggingar eftir Jean-Claude Trichet, núverandi seðlabankastjóra Evrópu, fyrir OECD, þar sem segði að innistæðutryggingakerfið gilti ekki ef um algjört bankahrun væri að ræða.

Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, segir að þarna eigi Davíð líklega við skýrslu franska seðlabankans frá árinu 2000, sem aðgengileg sé á netinu, og ekki meinta skýrslu OECD.

Í þeirri skýrslu segir, á blaðsíðu 179, í þýðingu blaðamanns: ,,Það er viðtekið að innistæðutryggingakerfum er hvorki ætlað né eru þau fær um að takast á við kerfislægt bankahrun, sem fellur undir aðra hluta „öryggisnetsins“, til dæmis eftirlitsaðila, seðlabanka, ríkisstjórn.“

Sé þetta setningin sem Davíð vísar til er það því sannarlega skoðun skýrsluhöfunda að tryggingakerfið eigi ekki við í algjöru bankahruni. Það bætist hins vegar við að þeir álíta að við slíkar aðstæður eigi aðrar stofnanir viðkomandi ríkis, eða ríkissjóður sjálfur, að hlaupa undir bagga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert