„Mér er sagt það sé til“

Össur Skarphéðinsson í ræðustóli Alþingis
Össur Skarphéðinsson í ræðustóli Alþingis mbl.is/Ómar

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segist aldrei hafa fengið greiningu bresku lögmannstofunnar Mishcon de Reya frá 29. mars, sem stíluð er á utanríkisráðherra, en þar kemur meðal annars fram að þess finnist ekki staður í lögum að Íslendingar beri ábyrgð á Tryggingasjóði innstæðna vegna Icesave og lagt er til að lögmannsstofan verði fengin til þess að kryfja málið frekar.

Á forsíðu greiningarinnar, sem Morgunblaðinu hefur borist, segir að þetta sé „trúnaðarúttekt fyrir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands“.

Össur segist hafa setið fund nokkrum dögum síðar, þar sem fulltrúar lögmannsstofunnar voru þátttakendur, en þar hafi ekkert komið fram um þessa hlið mála.

„Hafi hún verið lögð fram á þessum fundi, þá hafði ég hana ekki með mér af fundinum. Þessi fundur var haldinn í kaffianddyri hótels með formanni samninganefndarinnar og fulltrúum Landsbankans í London. Þær umræður sem ég tók þátt í á þessum fundi, þar sem ég átti stutta viðdvöl, lutu að lagatæknilegum atriðum vegna frystingar Breta á eignum og möguleikum til að fá henni aflétt og sömuleiðis að eignastöðu Landsbankans. Þær snerust fyrst og fremst um Landsbankaleiðina sem samninganefndin var að velta fyrir sér að fara. Ég var að heyja mér efnivið í ýmsa aðra fundi sem ég átti ytra og það var markmiðið með þessum fundi.“

– Hafðirðu ekkert heyrt af þessu áliti?

„Nei, en mér er sagt það sé til, ekki í mínu ráðuneyti, heldur í fjármálaráðuneytinu.“

– Af hverju var það ekki lagt fram?

„Að því er okkur varðar í utanríkisráðuneytinu, þá er það einfaldlega vegna þess að gögnin voru ekki þar og menn kannast ekki við þau.“

– Þú veist ekki af hverju fjármálaráðuneytið lagði þau ekki fram?

„Nei, ég hef ekki vitað af þessu og það er klárt að ég fór ekki með það af þessum fundi.“

Berja hausnum við steininn

„Það er ótrúlegt að stjórnvöld ætli að berja hausnum við steininn eftir að hafa séð þetta lögfræðiálit og að hlusta á útskýringar Össurar Skarphéðinssonar um að þetta komi Icesave ekki við,“ segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

„Sérstaklega í ljósi þess að það er tiltekið í greinargerðinni sjálfri með frumvarpinu um Icesave-samninginn að það hafi verið leitað til þessarar lögmannsstofu út af Icesave-málinu.“

Höskuldur kom með fyrirspurn í þinginu í síðustu viku um hvort það ætti eftir að leggja einhver gögn fram sem vörpuðu frekara ljósi á málið. „Því miður staðfestir þetta grun minn um að stjórnvöld leggi ekki fram gögn sem eru þeim óþægileg. Nú benda menn hver á annan, Össur bendir á fjármálaráðuneytið en einhver er ekki að fara að með rétt mál.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert