Hörmung, segir hótelstjóri

mbl.is/Júlíus

„Þetta er hörmung, húsið er brunnið til kaldra kola, og það logar enn,“ segir Úlfar Ingi Þórðarson, hótelstjóri á Hótel Valhöll. Húsið er ekki alveg hrunið í austari endanum, þar sem slökkviliðsmenn berjast enn við eldinn.

Úlfar lýsir atburðinum þannig að eldvarnarkerfið fór af stað í þrígang seinnipartinn í dag og svo fór að koma reykur niður úr millilofti í veitingasalnum. Þá hringdi hann í 112 og kallaði eftir slökkviliði. Eldurinn var ekki sjáanlegur fyrst en kom svo niður í stóra veitingasalinn. Þá voru tekin upp slökkvitæki en svo fylltist allt af reyk á nokkrum mínútum.

Úlfar telur að eldurinn hafi kviknað út frá háfi í eldhúsinu. Á bilinu 30-40 manns voru inni í húsinu þegar eldurinn blossaði upp. Húsið var rýmt og farið var yfir herbergin til að gæta þess að enginn yrði eftir inni. Að sögn Úlfars glötuðu bæði starfsmenn og gestir eigum sínum, sem margar hverjar verða ekki bættar.

„Nú tekur algjör óvissa við,“  segir Úlfar. „Ætli við reynum ekki fyrst að hugsa um þá gesti sem eiga bókað hjá okkur.“

Fullbókað var á Hótel Valhöll í kvöld, en þá áttu að vera tónleikar með Helga Björnssyni og hljómsveit.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert