Óljóst hvað verður um vistmenn

Frá Djúpavogi.
Frá Djúpavogi. Andrés Skúlason

„Þetta er auðvitað bara alveg hræðilegt. Við áttum að fara í sumarfrí í dag og koma aftur 1. september en í gær var okkur tjáð að öldrunarheimilið myndi ekki opna að nýju eftir fríið,“ segir Margrét Friðfinnsdóttir, starfsmaður á öldrunarheimilinu í Djúpavogi. Starfs- og vistmönnum var tjáð í gær að heimilinu yrði lokað til frambúðar og myndi ekki hefja starfsemi sína eftir sumarfrí.

Á heimilinu voru fjórir vistmenn og að sögn Margrétar höfðu þeir verið á heimilinu í lengri tíma. Þeim voru ekki boðin nein önnur úrræði og segir Margrét með öllu óljóst hvað verður um vistmennina. 

„Þeir vilja auðvitað helst vera hérna í grennd við heimili sitt á Djúpavogi. Þeir vilja helst ekki þurfa að fara til Seyðisfjarðar því það er svo langt þangað og þetta er háaldrað fólk.“ 

Margrét segir að uppgefin ástæða fyrir lokuninni hafi verið fjárskortur. „Ég veit ekki betur en að þessi ákvörðun hafi verið tekin í gær um hádegisbilið. Það er fjárskortur sem stendur í vegi fyrir rekstrinum eins og svo mörgu öðru. Það þarf víst alltaf að spara.“

Hún segir jafnframt dapurlegt að hugsa til þess að meðan fólk bíði á biðlistum eftir plássi á öldrunarheimilum í Reykjavík sé heimilum úti á landi lokað. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert