Of stíf skilyrði fyrir fjármögnun Strætó

Umhverfis- og samgönguráð Reykjavíkurborgar styður endurfjármögnun Strætó bs en telur þau skilyrði sem hafa verið sett fram fyrir endurfjármögnun vera of bindandi. Nauðsynlegt sé að endurskoða þau og er borgarráð hvatt til þess að gera það.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, formaður umhverfis- og samgönguráðs, nefnir sem dæmi skilyrði um að framlög sveitarfélaga haldist þau sömu, á raunvirði, næstu fimm árin. Þá hafi verið sett fram að öll aukning á rekstrarútgjöldum Strætó fari inn í fargjaldaverð, í stað þess að lenda á sveitarfélögunum.

„Við erum alveg tilbúin að ræða þetta [hækkun fargjalda í stað viðbótarframlaga sveitarfélag] ef til kemur, en teljum of bindandi að setja það fram sem skilyrði,“  segir Þorbjörg Helga.

Samhljóða bókun ráðsins er eftirfarandi: „Strætó bs. gegnir lykilhlutverki við framkvæmd samgöngustefnu Reykjavíkurborgar sem ætlað er að tryggja greiðar og öruggar samgöngur fyrir alla, stuðla að bættu umhverfi, góðri heilsu og aðlaðandi borgarbrag.

Umhverfis- og samgönguráð styður eindregið tillögu þess efnis að sveitarfélögin komi að rekstrarvanda félagsins með yfirtöku skulda. Ætlað er að sveitarfélögin veiti rúmum 400 milljónum króna til þess. Skilyrðin þurfi hins vegar að endurskoða, sem fyrr segir.

Fyrir liggur byggðasamlagið um Strætó verði endurskoðað í heild sinni. Þorbjörg Helga bendir á að mjög ólík viðhorf séu innan sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um reksturinn, og hversu mikið þau vilja leggja af mörkum. Þessi áherslumunur hefur endurspeglast í því hvernig strætisvagnakerfið hefur gengið fyrir sig undanfarin ár og því sé mjög mikilvægt að hefja sem fyrst vinnu við að ná sátt um stofnsamþykktir Strætó.

„Okkur finnst líka mikilvægt að fara að horfa á samgöngur í heild sinni, að horfa á bílastæðin í samhengi við strætó, við gangandi og hjólandi vegfarendur,“  segir Þorbjörg Helga.

Þannig þarf að samþætta „á markvissan hátt ákvarðanir um samgöngumannvirki, hjóla- og göngustíga, forgang og þjónustu almenningssamgangna, bíla- og hjólastæði þannig að í boði sé fjölbreytt samgöngukerfi fyrir akandi, hjólandi og gangandi,“ eins og segir í minnisblaði með bókun umhverfis- og samgönguráðs.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert