Vegagerðin fái sektarvald

mbl.is/Júlíus

Nefnd um endurskoðun umferðarlaga leggur til að Vegagerðin fái heimild til sekta ökumenn ökutækja yfir 3,5 tonnum um allt að 500 þúsund krónur, brjóti þeir gegn ákvæðum umferðarlaga um aksturs- og hvíldartíma, búnað, hleðslu eða heildarþyngd.

Tilgangurinn með því að veita Vegagerðinni sektarvald er að efla enn frekar þátt Vegagerðarinnar í hinu sérhæfða eftirliti sínu með akstri ökutækja sem eru meira en 3,5 tonn af leyfðri heildarþyngd á vegum landsins. Þá er leitast við að færa ákveðna brotaflokka frá því að vera andlag eiginlegra fjársektarrefsinga yfir í að vera grundvöllur stjórnvaldssekta sem ákvarðaðar verði af Vegagerðinni.

Í greinargerð með frumvarpsdrögum segir að hagkvæmt sé að eftirlit beinist að öllum þeim atriðum sem skoða ber samkvæmt gildandi reglum þegar ökumaður farmflutningabifreiðar hefur sinnt stöðvunarmerki lögreglu eða eftirlitsmanns á vegum úti. Er í því sambandi átt við reglur um þungatakmarkanir, aksturs- og hvíldartíma, og frágang farms.
Það segir að ljóst sé að gildandi fyrirkomulag, sem lögfest var upphaflega árið 2004 og síðan breytt í núverandi horf árið 2006, hafi ekki gengið sem skyldi. Fyrir liggi að hið sérhæfða eftirlit Vegagerðarinnar hafi ekki náð tilgangi sínum að fullu sökum þess að gildandi lög geri ráð fyrir að öll mál, þar sem grunur leikur á um brot á þeim reglum sem Vegagerðinni er ætlað að fylgjast með, skuli send lögreglu í hefðbundinn farveg sakamála.

Að þessu virtu er með ákvæðum um stjórnvaldssektir Vegagerðarinnar vegna ýmissa brota ökumanna, sem aka ökutækjum sem eru meira en 3,5 tonn að leyfðri heildarþyngd, lagt til að gerð verði sú grundvallarbreyting frá gildandi lögum að brot á ákvæðum laganna um aksturs- og hvíldartíma ökumanna, um stærð, heildarþyngd og ásþunga ökutækja, um búnað slíkra ökutækja, og um hleðslu, frágang og merkingu farms, að undanskildum hættulegum farmi, skuli almennt séð ekki sæta viðurlögum í formi refsinga, þ.e. fjársekta eða fangelsi, heldur varði slík brot stjórnvaldssektum sem ákveðnar verða af Vegagerðinni í samræmi við eftirlitshlutverk hennar.

Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að þess megi vænta að mál af þessu tagi fái með þessu fyrirkomulagi skjótvirkari afgreiðslu. Þá segir að ákvörðun Vegagerðarinnar um álagningu stjórnvaldssektar verði kæranleg til samgönguráðherra. Ef aðili máls er áfram ósáttur við lúkningu slíkra mála getur hann skotið máli til dómstóla eða leitað til umboðsmanns Alþingis.

Allt að hálf milljón

Eins og áður segir geta sektir numið allt að 500 þúsund krónum og skal nánar kveða á um sektarfjárhæðir vegna einstakra brota í reglugerð sem samgönguráðherra setur. Skal við ákvörðun um fjárhæð sekta hafa hliðsjón af eðli og umfangi brota, hvað brot hafa staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða.

Sektir sem ákveðnar eru af Vegagerðinni renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Vegagerðarinnar skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.

Vegagerðin má veita ökumanni eða lögaðila allt að 25% afslátt af fjárhæð stjórnvaldssektar ef sektin er greidd að fullu innan 30 daga frá dagsetningu ákvörðunar. Ákvarðanir Vegagerðarinnar um stjórnvaldssektir eru aðfararhæfar.

Ítrekuð brot ber að kæra til lögreglu

Ef ökumaður hefur tvívegis áður sætt stjórnvaldssektum Vegagerðarinnar og er á ný grunaður um slíkt brot skal Vegagerðin vísa máli hans til lögreglu. Gert er ráð fyrir að ekki verði heimilt að nota upplýsingar sem maður hefur veitt Vegagerðinni sem sönnunargagn í sakamáli sem rannsakað er af lögreglu eða höfðað er gegn honum vegna ítrekaðra brota.

Drög að frumvarpi til nýrra umferðarlaga

mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert