Landsmenn flykkjast í sund

mbl.is/Jakob Fannar

Allt stefnir í metaðsókn í sundlaugum landsins þetta sumarið. Að sögn forstöðumanna sundlauga vítt og breitt um landið má fyrst og fremst rekja aukna aðsókn annars vegar til hins góða veðurs sem ríkt hafi að undanförnu og hins vegar þess að fleiri landsmenn hafa kosið að ferðast innanlands í ár.

„Það má segja að aðsóknin haldist í hendur við veðrið. Þá daga sem er sól og hlýtt þá fyllist hér allt,“ segir Ólöf Jónsdóttir, staðgengill forstöðumanns sundlaugarinnar í Hveraskarði í Hveragerði. Sem dæmi um aðsókn má nefna að í júní sl. voru gestir í Hveraskarði um 6.850, sem er ríflega 2.330 gestum meira en í sama mánuði í fyrra.

Í sundlaugunum í Borg í Grímsnesi og Hlíðarlaug í Úthlíð hefur verið áberandi betri aðsókn þetta sumarið, sem skýrist líklega af nálægð lauganna við vinsæl sumarhúsalönd. Selfyssingar hafa einnig verið duglegir að stunda sína sundlaug, en í maí 2008 voru gestir ríflega 8.100 samanborið við tæplega 15.000 í ár. „Aðsóknin hefur farið fram úr okkar björtustu vonum. Það spilar vafalítið inn í að hér er frítt fyrir börn og ungmenni 17 ára og yngri,“ segir Þórdís Eygló Sigurðardóttir, forstöðumaður sundhallarinnar á Selfossi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert