Ók landshluta á milli í svefni

Toyota LandCruiser bifreið, svipuð þeirri sem „næturröltarinn
Toyota LandCruiser bifreið, svipuð þeirri sem „næturröltarinn" tók traustataki. mbl.is/ÞÖK

Þrettán ára gömul stúlka tók bifreið traustataki í Húsafelli í nótt og ók henni til Keflavíkur. Svo virðist sem stúlkan hafi verið í fastasvefni er hún stal bifreiðinni en hún á vanda til að ganga um í svefni. Hafði hún skrifað skilaboð á vegg hjá bíleigendum með kveðju frá „næturröltaranum".

Að sögn eiganda bifreiðarinnar virðist sem stúlkan hafi gengið dágóðan spöl í svefni í Húsafelli, úr sumarbústað sem hún dvaldi í að húsi þar sem bíllyklarnir voru geymdir. Þar skrifaði hún kveðju til bíleigandans og tók lykla af Toyota Landcruiser bifreið hans og ók af stað.

Segir hann enga ástæðu til annars en að taka orð föður stúlkunnar trúanleg um næturgöngur hennar í svefni en engin verðmæti voru tekin og engar skemmdir unnar á heimili bíleigandans. 

Lögreglan á Suðurnesjum vildi ekki tjá sig um málið við mbl.is en samkvæmt heimildum mbl.is var það athugull vegfarandi í Keflavík sem sá til sérkennilegs aksturslags bifreiðarinnar. Þegar betur var að gáð reyndist barn vera undir stýri. 

Ekkert sér á bifreiðinni eftir næturævintýrið annað en að henni hafi greinilega ítrekað verið ekið utan í kantsteina á leiðinni frá Húsafelli til Keflavíkur.

ATHUGASEMD: Að tillitssemi við stúlkuna og fjölskyldu hennar hefur verið ákveðið að taka út möguleika á að blogga um þessa frétt. Gert 14:48.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert