Listaverkin gerð upp með bönkunum

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Stefnt er að því að skýrsla um listaverk í eigu bankanna verði tilbúin áður en endurfjármögnun bankanna verði lokið. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra. Ekki hefur verið lokið við að áætla virði listaverkanna sem eru í höndum bankanna. Nú stendur yfir listfræðilegt mat á verkunum, t.a.m. um hverjar teljist vera þjóðargersemar, áður en bankarnir verða leystir aftur frá ríkinu.

Um 4.000 listaverk í eigu bankanna þriggja, Nýja Kaupþings, Íslandsbanka og Nýja Landsbankans. Álfheiður Ingadóttir lagði fram fyrirspurn þessa efnis á Alþingi í dag, og sagði mörg þessara verka hafa fylgt bönkunum í einkavinavæðingu þeirra árið 2002. Þau komust síðan aftur í eigu ríkisins síðastliðið haust.

Katrín segir töluverðan fjölda verka hafa bæst í safn bankanna síðan þá. Nú er það í umsjá tveggja sérfræðinga frá Listasafni Íslands, þeirra Halldórs Björns Runólfssonar og Eiríks Þorlákssonar, að meta verkin. Fjármálaráðherra hefur rætt við formenn skilnefnda Glitnis og Kaupþings um að ríkið kaupi þau verk sem þyki standa upp úr, af bönkunum þegar þeir verða aftur einkavæddir.

Áætlað er að endurfjármögnun bankanna verði lokið 14.ágúst og kveðst Katrín munu fara yfir málið fyrir þann tíma. Ákvörðun um hvort verkin verði keypt mun byggja á gildi hvers þeirra fyrir sig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert