Gróðureldarnir ógna ekki mannvirkjum

mbl.is/ÓSÁ

Landhelgisgæslan er komin langt fram úr  áætlun um flugtíma. Þar eð gróðureldarnir austan við Kleifarvatn ógna hvorki mannvirkjum né mannslífum ákvað Gæslan að bíða átekta áður en þyrla yrði send í slökkvistarfið, að sögn Halldórs B. Nellett, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar.

„Við höfum ekki flugtíma í þetta,“ sagði Halldór. „Ef þetta fer að versna þá reynum við að bregðast við.“ Hann kvaðst hafa rætt við veðurfræðing í morgun sem sagði að von væri á skúrum á svæðinu sem brennur í kvöld.

Halldór sagði að hver flugtími á Puma-þyrlu kosti um 600 þúsund krónur. Þyrlan var notuð til að slökkva gróðurelda ofan við Hafnarfjörð nýlega. Halldór sagði það hafa verið gert vegna þess að eldarnir loguðu þar nær byggðu bóli. Eldarnir austan Kleifarvatns logi uppi á fjalli, fjarri mannabyggð og mannvirkjum. 

„Vissulega hefðum við farið í þetta ef mannvirki, að ég tala ekki um mannslíf, hefðu verið í hættu,“ sagði Halldór. „Uppi á fjöllum verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti.“

Halldór sagði að Landhelgisgæslan sé komin töluvert framyfir áætlun um flugtíma þyrlanna sem byggist á fjárveitingu. „Það hefur verið gríðarlega mikið um útköll undanfarið og við höfum náð að sinna þeim öllum sem betur fer. Það gengur fyrir,“ sagði Halldór.

Inni í flugtímaáætluninni eru meðal annars æfingar. Halldór sagði að æfingar séu skornar niður á móti útköllum, enda geti útkall komið í staðinn fyrir góða æfingu. Náðst hefur að sinna öllum útköllum undanfarna mánuði.

Tvö þúsund lítrar í loftinu
Tvö þúsund lítrar í loftinu Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert