Ósáttir að vera krafðir um endurgreiðslu

Frá húsnæði Tryggingastofnunar.
Frá húsnæði Tryggingastofnunar. mbl.is/Árni Torfason

Nú um mánaðarmótin munu þúsundir öryrkja og ellilífeyrisþega fá bréf frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) þar sem þeir verða krafðir um endurgreiðslu á bótum vegna fjármagnstekna. Frítekjumark vegna fjármagnstekna er einungis krónur 97.000 á ári. Þetta kemur fram í ályktun frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökum eldri borgara.

„Margir hafa með ráðdeild og hagsýni náð að búa sér til varasjóð til að bregðast við óvæntum aðstæðum eins og auknum kostnaði vegna tannviðgerða eða til að sinna viðhaldi húsnæðis síns og bifreiða.

Því munu endurgreiðslukröfur TR koma illa við marga og minnir Öryrkjabandalag Íslands (ÖBÍ) og Landssamband eldri borgara (LEB) á að öryrkjar og ellilífeyrisþegar hafa nú þegar orðið fyrir miklum skerðingum hjá TR og lífeyrissjóðum svo ekki sé talað um þær almennu hækkanir sem allir landsmenn hafa fundið fyrir undanfarna mánuði

ÖBÍ og LEB benda á að ekki séu samræmdar reglur vegna fjármagnstekna milli atvinnulausra, námsmanna og lífeyrisþega. Atvinnulausir mega hafa 59.000 í fjármagnstekjur á mánuði áður en bætur skerðast. Fjármagnstekjur hafa ekki áhrif á lánveitingu frá LÍN.

ÖBÍ og LEB fara því fram á við félags- og tryggingamálaráðherra að skerðingar vegna fjármagnstekna verði endurskoðaðar með það að markmiði að draga úr þeim þannig að lífeyrisþegum sé ekki refsað jafn grimmilega og nú er gert fyrir að eiga varasjóði inni á bankabókum," að því er segir í ályktun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert