Grásleppan seld til Kína

Hafinn er útflutningur á frystri grásleppu til Kína. Er það Triton ehf og Landssamband smábátaeigenda sem standa fyrir útflutningnum. Mikilvægt að sjómenn komi með allan afla í land því finna megi markað fyrir nánast allt sjávarfang.

Um langt skeið hefur grásleppa nær eingöngu verið veidd til þess að hriða úr henni hrognin þar sem erfitt hefur verið að finna markað fyrir grásleppuna sjálfa. Hefur fiskinum sjálfum því verið hent í stórum stíl og er áætlað að um 2.800 af grásleppu falli til árlega eftir að hrogn hafa verið fjarlægð.

Unnið hefur verið að því markvisst síðustu ár af hálfu Tritons að finna markað fyrir grásleppuna og lítur nú út fyrir að sú vinna sé að bera nokkurn ávöxt.

Fyrirtækið hefur tekið þátt í nokkrum sjávarútvegssýningum í Kína og hefur mátt þar merkja nokkurn áhuga á fiskinum. Hafa nú verið seldir út nokkrir gámar.

Að því er segir á síðu AVS rannsóknarsjóðs í sjávarútvegi reyndist það nokkrum erfiðleikum bundið að fá sjómenn til þess að breyta kviðskurðinum á grásleppunni til þess að ná hrognunum, en það var ein af forsendum kaupandans í Kína. Eru menn nú hins vegar bjartsýnir á að meira magn komist á markað í næstu vertíð.

Segir á síðunni að þessi árangur Tritons með grásleppuna sýni að finna megi markað fyrir svo til allt sjávarfang og að skerpa ætti á þeirri kröfu að komið sé með allan afla í land.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert