Skemmdarverk unnin á tilraunareit í Gunnarsholti

Skemmdarverk voru unnin í nótt eða í morgun í tilraunaræktun ORF Líftækni í Gunnarsholti. Allt bygg í reitnum hefur verið eyðilagt. ORF segir ekki ljóst hverjir standi að skemmdarverkunum en tölvupóstur barst í dag frá einhverjum sem kalla sig Illgresi þar sem sagði, að tilraunareiturinn hefði verið jafnaður við jörðu. Málið hefur verið kært til lögreglu.

ORF segir, að ræktun á erfðabreyttu byggi í Gunnarsholti sé liður í  mikilvægri rannsóknar- og þróunarstarfsemi fyrirtækisins sem miði að  því að framleiða verðmætar afurðir fyrir læknisfræðilegar rannsóknir,  snyrtivöruiðnaðinn og lyfjaþróun. Ljóst sé að fyrirtækið muni ekki fá  uppskeru úr tilraunareitnum í Gunnarsholti í haust eins og stefnt hafi verið að og skemmdarverkin muni tefja áframhaldandi þróunarstarf  fyrirtækisins á Íslandi. 

Tilraunaræktun á erfðabreyttu byggi utandyra hefur staðið yfir í  Gunnarsholti með hléum frá því árið 2003. ORF segir, að núverandi ræktun byggi á leyfi sem Umhverfisstofnun veitti í vor á grunni jákvæðra umsagna  Ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur og Náttúrufræðistofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert