Arnarvarp gekk vel

36 arnarungar komust á legg í sumar.
36 arnarungar komust á legg í sumar. Ragnar Axelsson

36 arnarungar komust á legg í sumar og hafa þeir ekki verið fleiri í manna minnum. Íslenski hafarnarstofninn telur nú um 65 pör og urpu 45 þeirra í vor. Varp misfórst hjá 19 þeirra, þar á meðal hjá því pari sem fylgst var náið með á vefmyndavél Arnarseturs Íslands.

Besta ár fram að þessu var 2004 en þá komust 34 ungar á legg. Ástæður þess að varp misferst eru m.a. ófrjó egg og reynsluleysi ungra para. Einnig hafa sum pör verið trufluð vísvitandi en minna bar á slíku en mörg undanfarin ár,að því er fram kemur á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Varpsvæði arna nær nú frá Faxaflóa og vestur og norður um í Húnaflóa. Áður urpu ernir um land allt og var stofninn þá tvisvar til þrisvar sinnum stærri en í dag. Fækkun hófst í kjölfar ofsókna og eitrunar á 19. öld og urðu pörin fæst um 20 kringum 1960. Fullorðnir ernir hafa sést í æ ríkari mæli á fornum arnarslóðum á Suðurlandi og Norðurlandi en ekki ílenst þar enn sem komið er.

Náttúrufræðistofnun Íslands fylgist með arnarstofninum í samvinnu við Fuglaverndarfélag Íslands og Náttúrustofurnar í Stykkishólmi og Bolungarvík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert