Fréttaskýring: Vaxandi þrýstingur á að afskrifa íbúðalán

Farið er að bera á auknum vanskilum fólks, sér í lagi með erlend íbúðalán, og bankarnir finna klárlega fyrir minnkandi greiðsluvilja og -getu viðskiptavina sinna. Fólk sem hefur staðið í skilum með allt sitt er að lenda í greiðsluerfiðleikum og margir farnir að kvíða haustinu með vandamál sem aðeins hafa stækkað á síðustu mánuðum. Skilvísir greiðendur gera sér fulla grein fyrir því að frysting lána er aðeins skammgóður vermir. Tíu mánuðir eru liðnir frá bankahruninu og almenningur hrópar eftir einhverjum aðgerðum. Nú síðast kom upp umræða um að greiða eingöngu af lánum miðað við upphaflega greiðsluáætlun.

Hugmyndir um að afskrifa skuldir fólks eru ekki nýjar af nálinni. Fljótlega eftir bankahrunið fór að bera á þeirri umræðu, enda hafa forsendur gjörbreyst frá því að lán voru tekin fyrir hrunið. Fyrir kosningarnar í vor voru tillögur framsóknarmanna áberandi um að afskrifa 20% af höfuðstól íbúðalána og lána fyrirtækja. Hagsmunasamtök heimilanna hafa einnig barist fyrir lánaleiðréttingu, m.a. í þá veru að breyta gengistryggðum íbúðalánum í verðtryggð krónulán.

Fleiri hugmyndir hafa verið uppi á borðum, eins og frá talsmanni neytenda um eignarnám íbúðarveðlána, annarra en hjá Íbúðalánasjóði, og niðurfærsla þeirra eftir mati sérstaks gerðardóms.

Áform Íslandsbanka senn kynnt

Þessi aukna umræða hefur náð eyrum ríkisstjórnarinnar. Ekki náðist í Árna Pál Árnason félagsmálaráðherra í gær en hann lét hafa eftir sér í Fréttablaðinu um helgina að afskrifa þyrfti skuldir sem væru umfram greiðslugetu og veðrými eigna. Taldi hann að svigrúm ætti að vera innan bankakerfisins til að takast á við afskrifuð lán. Þegar lánin hefðu verið færð milli gömlu og nýju bankanna hefði verið gert ráð fyrir afskriftum.

Innan bankakerfisins eru núna ræddar hugmyndir um að afskrifa að hluta íbúðalán tekin í erlendri mynt og breyta eftirstöðvunum í óverðtryggð lán. Þannig kynntu fulltrúar Íslandsbanka slíkar hugmyndir á fundi félagsmálanefndar Alþingis í síðustu viku, sem ganga út á nokkurs konar skuldbreytingu í samningi á milli bankans og viðskiptavina hans. Már Másson, upplýsingafulltrúi bankans, segir að verið sé að skoða ýmsar lausnir og leiðir. Viðræður hafi átt sér stað við ýmsa aðila en hins vegar sé mörgum spurningum ósvarað, m.a. um skattalega meðferð. „Við gerum ráð fyrir að kynna þá leið sem bankinn hyggst fara í þessum efnum á næstu vikum,“ segir Már.

Lilja Mósesdóttir, formaður félagsmálanefndar, segist ekki geta tjáð sig um fyrirhugaðar aðgerðir einstakra banka. Hins vegar sé ljóst að til einhverra almennra aðgerða verði að grípa og stjórnvöld verði að sýna þar frumkvæði. Reynslan hafi leitt í ljós að sértækar aðgerðir til að létta skuldabyrði fólks hafi ekki dugað sem skyldi.

„Upplýsingar hafa komið fram frá lánastofnunum sem benda til að úrræðin sem eru fyrir hendi dugi ekki, því þarf að ákveða hversu víðtæk nýju úrræðin verða,“ segir Lilja og bendir á að allir skuldarar hafi orðið fyrir kjararýrnun, eignarýrnun og aukinni skuldabyrði langt umfram það sem annars staðar hafi gerst meðal nágrannaþjóða okkar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert