Lýsing sökuð um miskunnarleysi

 „Lýsing hefur þróað með sér þá aðferð að líta á alla sem glæpamenn og beita mikilli hörku,“ segir Sigþór Ari Sigþórsson verkfræðingur. Hann kveðst hafa reynslu af öðrum fjármögnunarfyrirtækjum og þar viðgangist ekki sú harka sem Lýsing beiti. Þau komi til móts við viðsemjendur og leitist við að veita þeim svigrúm til að standa skil á skuldum.

Tveir aðrir viðmælendur bera miskunnarleysi fyrirtækisins vætti og væna fyrirtækið um óheiðarleg vinnubrögð og blekkingar. Þá telja þeir óhæft að á sama tíma og Lýsing hafi mælt með fjármögnun í erlendri mynt hafi eigendur fyrirtækisins í Existu tekið afstöðu gegn krónunni.

„Það vekur furðu að menn sem eiga stóran þátt í þessu hruni hér skuli óáreittir fá að níðast á fyrirtækjum og fólki í gegnum Lýsingu.“ Tvímenningarnir sáu sér ekki fært að koma fram undir nafni og báru við að það gæti haft áhrif á yfirstandandi samningaviðræður við Lýsingu.

Sigþór Ari er framkvæmdastjóri Klæðningar en Lýsing hefur leyst til sín fjölda vinnutækja fyrirtækisins vegna greiðsluerfiðleika. Hann segir það hafa verið gert án alls samráðs og þrátt fyrir munnlegt samkomulag um greiðslufrest. „Það er ekki hægt að treysta orði sem kemur frá þeim, samvinnan er engin og skilningurinn er enginn,“ fullyrðir Sigþór.

„Ég hafna þessu algerlega,“ segir Halldór Jörgensson, forstjóri Lýsingar hf. „Við gerum allt sem við mögulega getum til að þurfa ekki að taka tæki til okkar.“ Hann segir fyrirtækið beinlínis tapa á að leysa inn vélarnar vegna þess hluta sem ekki fæst greiddur og því reyni þeir að forðast það í lengstu lög.

Halldór vísar því einnig alfarið á bug að fyrirtækið beiti blekkingum, gangi á bak orða sinna eða brjóti lög í starfi sínu. Hann segist hafa skilning á að fólk sé ósátt en leggur áherslu á að langflestir þeirra viðskiptavina sem komi heiðarlega fram sleppi við langtímatjón.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert